„Enn einn erfiði fundurinn“

Húsnæði Kvikmyndaskóla Íslands við Grensásveg.
Húsnæði Kvikmyndaskóla Íslands við Grensásveg. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Stjórnin kynnti áætlun um hvernig klára á önnina. Þetta var að mestu kynning á því að fjármagn lægi fyrir út önnina og næstu önn,“ segir Jör­und­ur Rafn Arn­ar­son, deild­ar­stjóri við skap­andi tækni í Kvik­mynda­skól­an­um. Stjórn skólans fundaði með nemendum og starfsfólki í hádeginu þar sem farið var yfir stöðuna í skólanum.

Skólinn hefur verið í fjárhagserfiðleikum en einhverjir kennarar hafa ekki fengið laun greidd. Tveimur deildarstjórum var auk þess sagt upp störfum í febrúar en Jörundur er annar þeirra. Hinn er Rúnar Guðbrandsson, deildarstjóri leiklistar.

„Mér var sagt upp í febrúar. Eins var Rúnari sagt upp á sama tíma. Skýringin á þeim tíma var sú að út af fjárhagsvandræðum væri ekki farið af stað með aðra önn. Þau eru komin með fjármagn núna en uppsögnin stendur enn þá,“ segir Jörundur en hann klárar að vinna uppsagnarfrestinn.

„Þetta var enn einn erfiði fundurinn. Fyrst og fremst var stjórnin að kynna fjármögnun og svara spurningum. Nemendur eru óöruggir og alls ekki ánægðir með stöðuna,“ segir Jörundur og ítrekar þá skoðun sína að honum finnist að það ætti að segja upp samn­ingi við ráðuneytið og virkja ákvæði þess efn­is að ráðuneytið tæki yfir rekst­ur­inn út önn­ina.

Ákveðið vantraust myndaðist

Böðvar Bjarki Pét­urs­son, stjórn­ar­formaður Kvik­mynda­skólans, segir að fundurinn í dag hafi verið góður. „Niðurstaðan eins og hún birtist er að ákveðið vantraust myndaðist, eins og þegar svona hlutir gerast, og stjórn tók fulla ábyrgð á því. Svona hlutir eru ekki ásættanlegir í rekstri. Stjórn ætlar að setjast niður með stjórn skólafélagsins og ræða hvernig það verði tryggt til framtíðar að svona hlutir gerist ekki aftur,“ segir Böðvar.

Hann segir að frá og með þriðjudeginum í næstu viku fari allt í eðlilegt horf í skólanum, laun verði greidd en vissulega sé skaðinn skeður að einhverju leyti.

Böðvar fullyrðir þrátt fyrir þetta að skólinn sé í betri stöðu en hann hafi verið í fjölda ára. „Reksturinn er á núlli og við erum að greiða niður skuldir. Áætlanir gerðu ráð fyrir því að komast á réttan grunn í lok næsta árs. Hugmyndin er að safna hlutafé hjá kvikmyndafélögunum en við ætlum að ganga í þá aðgerð í sumar.

Stefnt er að því að styrkja fjárhagslegan grunn skólans til að koma í veg fyrir svipuð atvik. Böðvar segir að það megi ekki gleyma því að fjárveiting hins opinbera til skólans sé lág. „Við höfum ekki hækkað skólagjöld í fjölda ára af því að við teljum þau of há. Það er óþolandi að nemendur í þessu námi þurfi að borga hærri skólagjöld en aðrir. Við erum á samningi við ríkið sem rennur út í lok næsta árs, störfum eftir honum og getum lítið kvartað meðan við störfum eftir samningi sem við samþykktum sjálf.

Hann segir skólastarf tryggt út árið, með þeim fyrirvara að það verði engin áföll. „Við erum auðvitað háð nemendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert