Anish Giri sigraði á Reykjavíkurskákmótinu

Sigurvegarinn Anish Giri.
Sigurvegarinn Anish Giri. Ljósmynd/GAMMA Reykjavíkurskákmótið 2017

GAMMA Reykjavíkurskákmótinu 2017 lauk í dag með sigri Hollendingsins Anish Giri. Giri var stigahæstur keppenda og talinn sigurstranglegastur fyrir fram en þurfti þó á öllum sínum hæfileikum að halda að því er segir í fréttatilkynningu.

„Giri var lentur hálfum vinningi á eftir efstu mönnum en vann tvo glæsilega sigra í röð með svörtu mönnunum og var kominn einn í forystu fyrir síðustu umferð. Ljóst var því að Giri nægði að vinna sína skák í dag til þess að enda einn efstur á mótinu. Í úrslitaskákinni mætti hann landa sínum Erwin l‘Ami sem vann mótið árið 2015. Það sem gerði pörunina aðeins erfiðari er að l‘Ami vinnur gjarnan sem aðstoðarmaður Giri á elítuskákmótum og því þekkja þeir stíl hvor annars út og inn. Giri náði engu að síður að fá betra tafl úr byrjuninni og andstæðingur hans lenti snemma í vandræðum sem voru óyfirstíganleg. Skák Giri var fyrst að klárast á efstu borðunum og sigurinn í höfn.“

Giri hlaut alls 8,5 vinninga úr skákunum tíu. Í næstu sætum komu þeir Sergei Movsesian frá Armeníu, Jorden van Foreest frá Hollandi, Gata Kamsky frá Bandaríkjunum og sigurvegarinn frá því í fyrra, Indverjinn Abhijeet Gupta, jafnir með 8 vinninga. Þeir unnu allir andstæðinga sína í síðustu umferð. Efstir Íslendinga urðu þeir Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson og Bragi Þorfinnsson. Þeir unnu allir sínar skákir í síðustu umferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert