Verklag Alþingis skilar sér í verri lögum

Dr. Haukur Arnþórsson - „Skipulagsleysi, málþóf og gæði lagasetningar: Raunmyndir …
Dr. Haukur Arnþórsson - „Skipulagsleysi, málþóf og gæði lagasetningar: Raunmyndir af störfum Alþingis“. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Því skemmri tíma sem lagafrumvarp er í þingnefnd og því hærra málanúmer sem það fær í þinginu þeim mun meiri líkur eru á að frumvarpið verði að lögum. Þetta er meðal annars vegna þess að mikill hluti lagafrumvarpa er drifinn í gegnum þingið á aðeins nokkrum lokadögum þess. Samhliða því eru gerðar um 20% breytingar á orðalagi frumvarpa og um 30% þegar kemur að stórum málum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Dr. Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðings á gögnum Alþingis frá 1991 til 2015.

Haukur fór yfir helstu niðurstöður rannsóknar sinnar á fundi í Háskóla Íslands í gær, en þar kemur meðal annars fram að þegar kemur að umfangsmestu lagafrumvörpunum (12 þúsund orð eða meira) þá hafi að meðaltali verið samþykkt 5,31 breytingarlög (hver slík lög geta innihaldið fjölmargar breytingar) fimm árum eftir að þau voru samþykkt. Þetta eru oftar en ekki tryggingamál, sveitarstjórnarmál og önnur umfangsmikil mál.

Aukin gæði með vandaðri málsmeðferð

Sagði Haukur að þessar tölur gætu bent til þess að gæði í afgreiðslu þingsins á lokadögum þess væri ábótavant. Aðspurður um hvort þetta fyrirkomulag skili sér í óvandaðri og verri lögum segist Haukur telja svo vera. „Já ég tel það. Ég tel að gæði mála hljóti að aukast eftir því sem málsmeðferðin í þinginu er vandaðri,“ segir hann og bætir við að til að bæta verklagið telji hann samvinnu stjórnar og andstöðu mikilvægasta, meðal annars í því að ná sameiginlegu áliti í nefndarvinnu.

Í rannsókninni vann Haukur út frá þeirri spurningu hvort gögn frá Alþingi styðji þá kenningu að þar sé veikt skipulag, málþóf stundað og gæðum á störfum þingsins ábótavant. Sagði hann á fundinum að svarið við þeirri spurningu væri  jákvætt, það væru ábendingar um það í gögnunum.

Haukur segir það verklag sem sé stundað að drífa mál …
Haukur segir það verklag sem sé stundað að drífa mál í gegnum þingið á lokadögum þess skila sér í verri lögum en annars væri. mbl.is/Ómar

Færi umsagnarferlið til ráðuneytanna

Haukur segir að sín skoðun sé að til að breyta þessu sé mikilvægast að koma í veg fyrir þá hefð að semja um frumvörp á lokadögum þingsins. „Þá er þingið að gera breytingar sem það hefur engan tíma til að fara aftur yfir.“ Segir hann mikilvægt að vinna við frumvarpið fari fram framar í ferlinu og að þingflokkar hafi samið um það fyrr en rétt áður en atkvæðagreiðsla fer fram. Þannig verði til þroskaðri vinnubrögð þar sem hægt sé að rýna mál bæði fræðilega og pólitískt faglega miklu betur en annars væri.

Með því að færa vinnu við frumvörp framar í ferlið segir Haukur að hægt sé að fá fullmótaðri frumvörp til þingsins. Í nágrannalöndum okkar sé það á höndum ráðuneytanna að fá til sín sjónarmið úr þjóðfélaginu, en hér á landi fari tími þingnefnda í þetta hlutverk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert