Keflavíkurflugvelli lokað vegna óhappsins

Ljósmynd/Isavia

„Við erum að vinna í því að koma farþegum frá borði. Það er forgangsmál. Síðan að koma flugvélinni af flugbrautinni svo hægt sé að opna hana aftur,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, í samtali við mbl.is en flugvél frá Primera Air, lenti í erfiðleikum í lendingu á Keflavíkurflugvelli seinni partinn og endaði utan flugbrautar.

Frétt mbl.is: „Ég sit hérna bara og nötra“

Viðbragðsaðilar hafa verið virkjaðir að sögn Guðna og þar á meðal Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Spurður hvað kunni að hafa valdið slysinu og hvort aðstæður hafi valdið því segir hann að það verði einfaldlega rannsakað. Fyrir liggi að mikil snjókoma hafi verið á svæðinu en það sé of snemmt að fullyrða nokkuð í þeim efnum. Það komi einfaldlega í ljós.

Norður-suður flugbrautinni hefur verið lokað sem fyrr segir en það þýðir að flugvöllurinn sem slíkur er lokaður þar sem austur-vestur flugbrautin er einnig lokuð vegna malbikunarframkvæmda. Spurður hvort spilað hafi inn í að flugbrautin er styttri vegna framkvæmdanna segir Guðni að það sé eitt af því sem verði væntanlega skoðað í rannsókninni. 

Guðni segir að flugvél frá Wizzair, sem hafi verið á leið til Keflavíkurflugvallar frá Póllandi, hafi verið snúið við af þessum sökum. Hægt sé hins vegar á meðan að lenda í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. „Þeir hafa hins vegar tekið þá ákvörðun að snúa aftur til Póllands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert