Kæmi helst niður á málstíma lögreglunnar

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samþykki Alþingi óbreytta þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun árin 2018-2022 þýðir það að fækka þarf um 6-8 stöðugildi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri segir að þetta hafi komið í ljós þegar hún og fjármálastjóri embættisins settust niður í gær eftir að hafa fengið eins dags fyrirvara til að skila inn umsögn við þingsályktunartillöguna.

Spurð um hvar þetta muni koma niður á lögreglunni segir Sigríður of snemmt að spá um það. Segir hún að það sé forgangsatriði að halda grunninum í lagi, rannsóknum og almennri löggæslu. Það þurfi því væntanlega að horfa á önnur svið og að líklegast muni niðurskurður koma niður á málstíma hjá embættinu.

Hún segir að í ár sé staðan nokkuð góð hjá lögreglunni, sérstaklega þegar miðað er við stöðuna fyrir tveimur árum. Segir Sigríður að nú sé enginn halli og ekki hafi verið gerð niðurskurðarkrafa í ár. Þá hafi embættið skilað 16 milljóna afgangi í fyrra.

Hún segir að yfirstjórnin muni svo þurfa að skoða stöðuna í lok ársins og meta hvað þurfi að gera ef sparnaðarkrafan sé samþykkt.

Sigríður tekur fram að hún sé ekki þeirrar skoðunar að auka þurfi fjárframlög í embættið bara til að auka þau og að rétt sé að fara sparlega með skattafjármuni, en það sé líka á hreinu að með því að fara fram á aukið aðhald muni það leiða til fækkunar lögreglumanna. „Við munum finna leiðir úr því, en viljum auðvitað halda óbreyttum rekstri. Það væri æskilegra að bæta við, en núna er ótímabært að ræða hvaða áhrif þetta hefði á reksturinn,“ segir Sigríður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert