Páll: Hljóta að vera mistök

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að samdráttartímabil sé framundan í rekstri spítalans verði fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára samþykkt. Töluvert meira fé þurfi til Landspítala sem og til heilbrigðisþjónustunnar í heild heldur en gert er ráð fyrir í áætluninni.

Þetta kemur fram í vikulegum pistli Páls sem er birtur á vef sjúkrahússins. Hann greinir frá því, að fulltrúar Landspítalans hafi í morgun farið á fund velferðarnefndar Alþingis til að ræða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018-2022. Landspítali hafi einnig skilað umsögn um málið

„Eins og ég hef áður tekið upp á þessum vettvangi vekur þessi áætlun áhyggjur um framtíðarrekstur spítalans og var það rakið á skilmerkilegan hátt á fundi velferðarnefndar,“ skrifar Páll. 

„Við höfum vakið athygli á því sem tæpast getur verið annað en mistök við vinnslu áætlunarinnar en þar eru settar fram samanburðartölur um fjárframlög Norðurlandaþjóða til heilbrigðisþjónustu sem ekki standast skoðun. Aðalvandinn er sá að töluvert meira fé þarf til Landspítala sem og til heilbrigðisþjónustunnar í heild heldur en gert er ráð fyrir í áætluninni. Framundan er samdráttartímabil í rekstri Landspítala ef áætlunin verður samþykkt eins og hún liggur nú fyrir Alþingi enda þarna kominn rammi fjárlaga til næstu 5 ára,“ skrifar Páll.

„Jafnframt skortir í áætluninni upp á fullnægjandi fjármögnun til að ljúka Hringbrautarverkefninu því þótt fé sé ætlað til uppbyggingar meðferðar- og rannsóknarkjarna er hvorki gert ráð fyrir kostnaði við tækjavæðingu bygginganna né við breytingar á eldra húsnæði,“ skrifar hann ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert