Skoðanamunurinn fortíðaágreiningur

Fjárveitingar til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru skertar um 460 milljónir í …
Fjárveitingar til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru skertar um 460 milljónir í kjölfar hrunsins. mbl.is/ Árni Sæberg

Úttekt Ríkisendurskoðunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins staðfestir ýmsa vankanta sem eru á skipulagi heilbrigðiskerfisins, þar á meðal skorti á fjármagni til heilsugæslunnar og óljóst hlutverk einstakra aðila í heilbrigðiskerfinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur sent frá sér vegna málsins.

Heilsugæslan segir skýrsluna þó bera með sér á köflum að Ríkisendurskoðun hefði mátt kynna sér málið betur, því í skýrslunni sé að finna ályktanir sem ekki eigi við rök að styðjast sem og úreltar upplýsingar.

Þeim ábendingum Ríkisendurskoðunar sem snúi beint að Heilsugæslunni (HH) verði þó að sjálfsögðu teknar alvarlega og þeim komið í viðeigandi farveg að því leyti sem hægt sé.

Meðal þess sem dregið er fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar (RE) er að stýring fjárveitinga innan heilbrigðiskerfisins hafi ekki verið til þess fallin að stuðla að því að heilsugæslan væri fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Fjárframlög hafi ekki verið í samræmi við fjölgun íbúa, en á sama tíma hafi  útgjöld vegna sérgreinalækninga aukist um 57%.

„Hér er hins vegar ekki nema hálf sagan sögð,“ segir í skýrslunni. „Fjárveitingar til HH voru skertar um 460 milljónir í kjölfar hrunsins. Sú 3% raunaukning sem RE segir HH hafa fengið var að mestu til að greiða fyrir kjarasamninga ríkisins við lækna og annað starfsfólk vegna kjarasamninga 2011 og 2015. Ef litið er framhjá launa- og verðlagsbótum voru fjárveitingar til HH á árinu 2016 í raun 9% lægri en þær voru fyrir hrun.“

Heilsugæslan telur einnig þá þjónustu sem læknavaktin býður vera hluta af heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en í skýrslu Ríkisendurskoðunar var bent á hættu á hagsmunaárekstrum þegar læknar hjá Heilsugæslunnar starfi einnig á Læknavaktinni.

Sömuleiðis telur Heilsugæslan telji þann samskiptavanda innan yfirstjórnar sinnar sem fjallað er um í skýrslunni vera fortíðarvanda. Stofnunin hafi gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar síðustu misseri sem geti fylgt mismunandi skoðanir á þeim faglegu áherslum sem lagðar eru til grundvallar hverju sinni. „Slíkur skoðanamunur var vissulega til staðar um tíma innan yfirstjórnar HH en er ekki lengur fyrir hendi og því vart þörf á aðkomu velferðarráðuneytisins vegna þessa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert