„Það kreppir víða skórinn“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að forgangsraða til heilbrigðismála. Það er gert ráð fyrir talsverðri innspýtingu til málaflokksins og stór hluti fer í fjármögnun á nýjum Landspítala sem er mjög stórt skref,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra um fjármálaáætlun 2018-2022 til heilbrigðismála.  

Landspítalinn hefur gagnrýnt að það vanti um 10 milljarða í rekstur spítalans árið 2018. Óttarr tekur fram að fyrir árið 2018 er ekki gert annað en að verja reksturinn því þröngt er í búi.

„Auðvitað hefði ég viljað það en þetta er staðan eins og hún er núna en það er verið að auka fé til heilbrigðismála. Við heyrum að það kreppir víða skórinn og heilbrigðismálin fá meira en margir aðrir málaflokkar. Ef það vænkast hagur þá væri hægt að verja meiri pening til heilbrigðismála,“ segir Óttarr aðspurður hvort meira fé verði varið til heilbrigðismála í núverandi fjármálaáætlun.

Flókinn málaflokkur

„Þetta er flókinn málaflokkur og flóknar tölur. Það fer að einhverju leyti eftir því hvernig fólk les í þær. Að einhverju leyti er þetta líka spurning um áherslur. Mikið er um áætlanir á þörf á því sem verður og það stemmir ekki alltaf saman,“ segir Óttarr, spurður um misræmi milli talna af hálfu stjórnvalda og Landspítalans um samanburð á fé til reksturs spítala hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. 

Hann segir að stjórnvöld hafi rætt mikið við forsvarmenn Landspítalans við undirbúning fjármálaáætlunarinnar. Og hann ítrekar mikilvægi þess að ráðuneytin vinni vel með sínum stofnunum. 

Á fundi velferðarnefndar Alþingis í morgun gagnrýndi María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, að blandað væri saman rekstrarkostnaði og stofnkostnaði spítalans og kostnaði við nýbyggingu Landspítalans. Óttarr bendir á að fjármálaáætlunin sé til fimm ára samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál og er ekki jafnnákvæmt plagg og fjárlög sem flestir þekkja.

„Þetta eru ekki útfærð fjárlög eins og við þekkjum það þar sem úthlutað er á ákveðna liði. Heldur er þetta stefnuyfirlýsing þar sem skilgreindir eru rammar til málefnasviða,“ segir Óttarr. 

Fé varið til kaupa á nýjum lyfjum

Í janúar kom í ljós að meira fé þyrfti til lyfjakaupa en læknar hafa ekki getað ávísað nauðsynlegum lyfjum meðal annars krabbameinslyfja til sjúklinga sinna því fjárheimild hefur ekki verið til kaupanna. Heilbrigðisráðherra segir að ríkisstjórnin ætli að veita auka fjármagni til lyfjakaupa. 

„Við höfum ekki getað innleitt ný lyf en við erum að vinna með lyfjaafgreiðslunefnd. Hún fundar á næstu dögum og þá verður tekin ákvörðun um innleiðingu nýrra lyfja,“ segir Óttarr.

Þessi staða kemur reglulega upp þar sem fjárheimildir til lyfjakaupa klárast. Heilbrigðisráðherra segir að ef það væri einfalt að passa upp á að það gerðist ekki yrði væri það leyst.  

Í því samhengi bendir hann á að þessi þróun er líka á hinum Norðurlöndunum. „Það er mikil og ör þróun í lyfjamálum og stöðugt koma fram ný, dýr og flókin lyf og mikill þrýstingur er á að innleiða lyfin jafnhratt og þau koma,“ segir Óttarr aðspurður hvers vegna þessi staða komi reglulega upp. 

Samkvæmt núverandi fjármálaáætlun 2018-2022 er gert ráð fyrir tæplega 20% aukningu milli 2017 og 2018 til lyfjakaupa. Hann bendir á að frá hruni hefur ríkissjóður verið að vinna upp halla á fjárveitingu til lyfjamála og sérstaklega hafi verið litið til þess í fimm ára fjármálaáætlun.

Heilbrigðisráðherra bendir á að lyf séu dýr í innkaupum og því vinna Norðurlöndin að því að reyna að kaupa sameiginlega lyfin af lyfjafyrirtækjum. Sú vinna hefur reyndar staðið yfir í um áratug en engan árangur borið enn þá. „Það er meiri kraftur í undirbúningnum núna,“  segir Óttarr aðspurður hvort hann reikni með að þessi samvinna skili frekar árangri á næstunni en síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert