Mæðgur töfruðu saman listaverk

Margrét Lóa ljóðskáld og Viktoría dóttir hennar í stofunni heima …
Margrét Lóa ljóðskáld og Viktoría dóttir hennar í stofunni heima þar sem bókin varð til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mæðgurnar Margrét Lóa og Viktoría höfðu aðeins eina viku til að gera fimmtíu afmælisbækur, í tilefni af hálfrar aldar afmæli þeirrar fyrrnefndu. Það var mikill sprettur og svefnlausar nætur, en allt tókst að lokum. Mamma ljóðskreytti myndir dóttur, las upp úr handgerðri bókinni í afmælinu og gaf gestum bækurnar.

Hugmyndin kviknaði í framhaldi af skólaverkefni sem ég vann í áfanganum pappírsvinna og bókagerð. Þar skoðum við bókverk og heildarhugmyndina í kringum það, lærum saumaskapinn í bókum, brot á pappír og vinnum kápur og klæðningar með þrykki og fleira skemmtilegu. Ég gerði Íslandsmyndir sem eru mónóþrykk af íslenskum blómum, blóðbergi, íslenskum rósum, sóleyjum og fleiri blómum. Þetta voru stórar myndir og mér datt í hug að kannski væri hægt að búa til eitthvað almennilegt úr þeim. Þegar ég svo sýndi mömmu þessar myndir ræddum við það í hálfgerðu gríni að gaman væri að nota þessar myndir til að búa til lítið bókverk,“ segir Viktoría Jóhannsdóttir sem er á hönnunarbraut í Tækniskólanum, en skólaverkefnið hennar endaði sem fimmtíu handgerðar ljóðabækur í tilefni af fimmtíu ára afmæli móður hennar, Margrétar Lóu Jónsdóttur ljóðskálds.
Viktoría bjó til einn púða með Íslandsmynd.
Viktoría bjó til einn púða með Íslandsmynd. mbl.is/Kristinn Magnússon


Fögnuður við verklok

„Það vildi svo vel til að ég átti til nafn á afmælisbók: Fimmtíu sinnum í kringum sólina, en það nafn fæddist þegar ég var í göngutúr með hundinn minn hjá hafinu. Þetta var nokkrum vikum fyrir fimmtugsafmælið svo ég hætti alveg að hugsa um þetta, því nóg var að gera við að undirbúa afmælið.

En þegar Viktoría sýndi mér mónóþrykkin sín komumst við saman að þessari niðurstöðu að búa til afmælisbók,“ segir Margrét Lóa og bætir við að sér finnist skemmtilegt að bókin hafi orðið til á undan ljóðunum.

„Ég skreyti í raun myndirnar með splunkunýjum afmælisljóðum. Þetta eru því ljóðskreyttar myndir, en oftast er þetta á hinn veginn, myndskreytt ljóð.“

Frumflutningur. Margrét, Gímaldin og Einar Melax.
Frumflutningur. Margrét, Gímaldin og Einar Melax.


Mæðgurnar höfðu ekki nema eina viku frá því að hugmyndin kviknaði til að gera fimmtíu afmælisbækur, svo þetta var mikill sprettur. „Vinnan var nokkuð seinleg af því ég handsaumaði hverja einustu bók, sem er mikil nákvæmnisvinna, og ég bar býflugnavax á hverja einustu forsíðu, til að ná fram sérstakri áferð. Við vorum satt að segja hálf svefnlausar alla þessa viku fram að afmæli. Þegar ég var búin að gera tuttugu stykki, þá var ég alveg búin að fá nóg, en það varð ekki aftur snúið, ég varð að klára,“ segir Viktoría og bætir við að bækurnar hafi ekki verið tilbúnar fyrr en kvöldið fyrir afmælið.

„Við þessi verklok varð þvílíkur fögnuður hjá okkur mæðgum, mamma kom hingað heim á vespunni sinni og sá að ég hafði raðað bókunum fallega saman í skókassa á stofuborðið. Okkur leið eins og við hefðum skapað kraftaverk úr lítilli hugmynd og nokkrum myndum,“ segir Viktoría.

Viktoría gerði myndir og saumaði, Margrét orti ljóðin.
Viktoría gerði myndir og saumaði, Margrét orti ljóðin. mbl.is/Kristinn Magnússon


Útgangspunkturinn í ljóðabálkinum er eðli málsins samkvæmt tímamótin, hálfrar aldar afmæli ljóðskáldsins.

„Ég er þakklát að fá að verða fimmtug, þakklát fyrir allt það góða, fólkið mitt, vini mína og fína heilsu. Það er nauðsynlegt að minna sig á, þegar smávægilegar flækjur koma upp, hve maður er lánsamur að mega draga andann og vera ofan jarðar,“ segir Margrét Lóa og bætir við að ljóðabálkurinn um fimmtíu árin hafi komið nánast fullskapaður á einu bretti.

„Ég hef áður samið ljóð og bækur á skömmum tíma og þær hafa ekki verið neitt síðri en þær sem tók mig kannski tíu ár að semja. Mér þykir jafn vænt um þær allar. Ljóðið er dálítið sérstakt, stundum hittir maður á galdrastund eins og maður sé tengdur við ákveðið loftnet. Ástæðan fyrir því að ég held áfram að semja ljóð er sú að það er næstum alltaf jafn erfitt, alltaf eins og maður sé á ákveðnum byrjunarreit.“

Viktoría að búa bækurnar til.
Viktoría að búa bækurnar til.


Allt vil ég með orðum veiða, þótt ekkert geti skýrt mitt lán

Margrét Lóa frumflutti ljóðabálkinn í fimmtugsafmælinu sem hún hélt í Listasafni Einars Jónssonar, umvafin vinum og vandamönnum. Og hún leysti alla afmælisgestina út með eintaki af nýju ljóðabókinni, samstarfsverkefni þeirra mæðgna.

„Þennan dag langaði mig af öllu hjarta til að gefa afmælisbókina, því þeir sem gefa eru hamingjusamastir,“ segir Margrét Lóa og bætir við að heildarhugmyndin hafi orðið að listrænum gjörningi, því Einar Melax og Gímaldin léku tónlist undir á meðan hún las upphátt ljóðabálkinn frá upphafi til enda fyrir afmælisgestina.

Viktoría að búa bækurnar til.
Viktoría að búa bækurnar til.


„María Lísa Alexía yngri dóttir mín las upp úr annarri bók frá mér, Ljóðaást, en hún er líka samin á skömmum tíma, aðeins tveimur dögum. Hún las bálk um ljóðagerðina eins og hún er stundum í veruleikanum, þar sem ég sit uppi við dogg, skrifandi, og litlar tær gægjast undan sæng. Það var auðvitað mjög sérstakt að vera uppi í rúmi að yrkja ljóð með þetta kraftaverk við hliðina á mér, litlu dóttur mína. Að reyna að fanga svo magnað augnablik. Ljóðið fjallar um það, að allt vilji ég með orðum veiða, þótt ekkert geti skýrt mitt lán.“

50 sinnum kringum sólina

I
Ég hef lifað í 50 ár
ferðast 50 sinnum kringum sólina

sekúndur verða að dögum
vikum, mánuðum, árum og
áratugum

draumar og minningar
tíminn sem ég hef eytt
með foreldrum og ástvinum


II
Í dag syng ég um allt
sem mér er gefið
syng, meðan hjartað
þessi seigi vöðvi
ferðast
á sínum eigin hraða
þar til yfir lýkur

hvar sem ég kem
dvelur landið mitt
innra með mér

meðan jörðin
ferðast með mig
ár eftir ár kringum sólina


III
Regn dansar á þaki

mosabreiður
blóðberg, fjólur og fíflar
gróður sem bíður undir snjónum

ferðumst um heiminn

einn daginn
verðum við ekki fær um það

Viktoría gerði myndir og saumaði, Margrét orti ljóðin.
Viktoría gerði myndir og saumaði, Margrét orti ljóðin.
Viktoría gerði myndir og saumaði, Margrét orti ljóðin.
Viktoría gerði myndir og saumaði, Margrét orti ljóðin.
Yngri systirin, María Lísa Alexía, að lesa upp í safninu.
Yngri systirin, María Lísa Alexía, að lesa upp í safninu.
Viktoría bjó til einn púða með Íslandsmynd.
Viktoría bjó til einn púða með Íslandsmynd. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert