Söngröddin í formalíni í 40 ár

Fyrir 40 árum. Jón Trausti, Geir, Svavar, Bjössi Thor og …
Fyrir 40 árum. Jón Trausti, Geir, Svavar, Bjössi Thor og Jens Pétur.

Gítarleikarinn Björn Thoroddsen eða Bjössi Thor og Laufið gefa út eins lags plötu eftir helgi og þá skilur leiðir á ný.

Bjössi fer í tónleikaferð með þekktum bandarískum tónlistarmönnum, meðal annars gítarleikaranum Robben Ford, um austurströnd Bandaríkjanna en Geir Gunnarsson lætur sig dreyma um frekari söngframa á meðan hann vinnur við smíðar í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Jón Trausti Harðarson, Svavar Ellertsson og Jens Pétur A. Jensen bíða átekta á meðan.

Hafnfirska unglingahljómsveitin Laufið átti miklum vinsældum að fagna árin 1975 og 1976. Þá fór hver í sína áttina og aðeins Bjössi Thor hélt áfram á tónlistarsviðinu. Um fjörutíu árum síðar hóaði hann sveitinni saman og hélt hún tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði í febrúar í fyrra, þar sem fyrstu sporin voru stigin á áttunda áratugnum.

Hljómsveitin Laufið. Frá vinstri: Jón Trausti Harðarson bassaleikari, Geir Gunnarsson …
Hljómsveitin Laufið. Frá vinstri: Jón Trausti Harðarson bassaleikari, Geir Gunnarsson söngvari, Svavar Ellertsson trommuleikari, Bjössi Thor gítarleikari og Jens Pétur A. Jensen gítarleikari um 40 árum eftir að bandið gerði garðinn frægan og hætti á hátindinum.


„Strákarnir höfðu ekki tækifæri til þess að halda áfram á sínum tíma, voru komnir með fjölskyldur og farnir að axla ábyrgð, og þegar ég leit til baka fannst mér ég skulda þeim þetta og við skelltum í giggið,“ rifjar Bjössi upp. „Þá sá ég að neistinn var fyrir hendi og fannst nauðsynlegt að hljóðrita bandið og ekki síst söngröddina hans Geirs, sem hafði verið sem í formalíni í 40 ár. Árangurinn er lagið It's up to you, sem verður aðgengilegt á öllum helstu tónlistarveitum eftir helgi.“

Geir segir að þetta sé allt með ólíkindum. „Bjössi hringdi í mig og spurði hvort ég væri nokkuð rosalega fótalúinn og þegar ég sagði svo ekki vera var ákveðið að blása til tónleika og svo kom hugmyndin um plötuna í framhaldinu,“ áréttar söngvarinn. „Ég hafði ekkert sungið í 40 ár og allt í einu fór ég út úr þægindarammanum. Þetta var auðvitað það sem okkur langaði alltaf til þess að gera áður en við lögðum upp laupana, en eins og Bjössi segir þá var ekkert stúdíó fyrir okkur.“

Þótt Geir hafi verið söngelskur sem barn og unglingur datt hann inn í Laufið fyrir algjöra tilviljun. „Mágur minn var að gutla í bandi og eitt sinn, þegar ég keyrði hann á æfingu, álpaðist ég inn með honum og fór ekkert út aftur, en nokkrum mánuðum seinna hafði Bjössi samband og ég gekk til liðs við Laufið,“ rifjar hann upp. „Þegar við hættum setti ég sönginn í frost og þíddi hann ekki fyrr en 40 árum síðar.“

Laufið lék oft á heimavelli í Hafnarfirði.
Laufið lék oft á heimavelli í Hafnarfirði.


Bjössi er á leið til Bandaríkjanna þar sem hann heldur nokkra tónleika með Robben Ford, Mackenzie Wasner, Brian Allen og Wes Little 4. til 13. maí. „Það er stórt skref fyrir mig að túra með Robben Ford, við komum fram víða á austurströndinni á hverjum degi og stundum tvisvar á dag,“ segir Bjössi. Geir segist hins vegar vera fyrir vestan og ekkert vera á leiðinni vestur um haf. „Við áttum aldrei von á því að gefa út plötu en fyrst það varð að veruleika getur allt gerst. Við erum samt ekki farnir að tala um Ameríku.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert