„Eins og vel kryddaður pottréttur“

Sumir þurfa að bíða eftir tengiflugi í Leifsstöð, en ákveðinn …
Sumir þurfa að bíða eftir tengiflugi í Leifsstöð, en ákveðinn hópur þeirra farþega teljast til ferðamanna hér á landi, mbl.is/Sigvaldi Kaldalóns

„Tal um að þetta hafi stórvægileg áhrif á raunverulegan fjölda ferðamanna, er eitthvað sem ég vil alls ekki taka undir að svo stöddu. Hins vegar eru einhver áhrif til staðar,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri hjá Ferðamálastofu, um það hvort þeir farþegar sem fara um Leifsstöð vegna tengiflugs og eru taldir til ferðamanna í gögnum þeirra, geti skekkt raunverulegar tölur um fjölda ferðamanna sem koma til landsins. Talning farþega fer fram við við vopnaleitarhlið og þeir farþegar sem koma hingað til lands með innritaðan farangur, með einu flugfélagi, og halda áfram í tengiflugi með öðru, eru taldir til ferðamanna. Flugfélögum sem hingað fljúga hefur fjölgað og því má leiða að því líkur að þessi hópur farþega hafi stækkað eitthvað

Á föstudag birtist grein á vefsíðunni Túristi.is þar sem leiddar voru líkur að því að þetta fyrirkomulag skekkti talningu Ferðamálastofu á ferðamönnum, ásamt fleiri þáttum. Þar var bent á að ferðamönnum hér á landi hefði fjölgað um 53,7 prósent á fyrsta ársfjórðungi, en fjölgunin hefði numið á bilinu 31 til 39 prósent á sama tíma síðustu ár. Hins vegar hafi gistinóttum útlendinga á íslenskum hótelum aðeins fjölgað um 26 prósent á sama tíma, og er svipuð og hlutfallsleg fjölgun á fyrsta ársfjórðungi síðustu tveggja ára.

Ólöf segir starfsmenn stofnunarinnar hafa farið yfir málið síðan fréttin birtist, en bendir á að það hafi legið fyrir frá upphafi að tölurnar hafi ákveðna innbyggða skekkju sem erfitt sé að komast fyrir. Þá bendir Ólöf jafnframt á að skekkja geti verið í talningu gistinátta.

Hefur ekki úrslitaáhrif

„Kristján Sigurjónsson, hjá Túrista.is hefur í gegnum tíðina haft glöggt auga fyrir ýmsu sem hægt er að velta vöngum yfir hvað varðar tölur í sambandi við ferðaþjónustuna. Okkar tilfinning á þessari stundu er hinsvegar sú að þetta hafi ekki úrslitaáhrif á þessar tölur. Þetta skiptir einhverju máli, en er örugglega ekki eitthvað sem veldur því að það sé hægt að slá því fram að fjöldi ferðamanna sé mun minni en hann er í raun og veru. Við birtum okkar tölur mánaðarlega og þá er búið að staðfesta þær, sannreyna og bera saman við farþegafjöldatölur Isavia, þannig við förum í gegnum ákveðna síu,“ útskýrir Ólöf.

„Á undanförnum árum hefur þeim flugfélögum fjölgað sem fljúga hingað á ársgrundvelli. Það  hefur því komið upp ný staða sem vert er að rýna í, hvort og með hversu miklum hætti það hefur áhrif á tölur um fjölda ferðamanna. Það munum við gera í samvinnu við Isavia.“

Fjölgað um tíu þjóðerni

Þessi hópur sem fer í gegnum Leifsstöð vegna tengiflugs er í raun óþekkt breyta og tölur yfir um þann farþegafjölda eru ekki skráðar sérstaklega. Aðspurð hvort hægt sé að sundurliða tölur um fjölda farþega betur, eða greina farþegahópinn enn frekar segir Ólöf það geta reynst erfitt. „Ef við ætlum að fá nákvæmar tölur þá þyrftum í raun að standa og tala við hvern einasta mann sem kemur í gegn, en í vikunni verður fjölgað um 10 þjóðerni í þjóðernistalningu til að auka nákvæmi þeirra upplýsinga. Það verður farið úr 18 þjóðernum upp í 28.“

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri hjá Ferðamálastofu, segir ekki hægt að …
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri hjá Ferðamálastofu, segir ekki hægt að slá því föstu að tengifarþegar skekki tölur um fjölda ferðamanna. Aðsend mynd

Ólöf ítrekar að margir þættir geti skýrt þennan mikla mun á milli fjölgunar ferðamanna sem koma til landsins og fjölgun gistinótta. Einn þáttur er mikil fjölgun ferðamanna yfir vetrartímann, en sá hópur staldrar skemur við en þeir sem koma yfir sumartímann. „Fjölgun ferðamanna yfir vetrartímann hefur verið um 60 upp í 76 prósent á meðan hún er hlutfallslega lægri yfir sumartímann. Það getur haft áhrif á útreikninga og skýrt að einhverju leyti af hverju meðalfjöldi gistinátta á ársgrundvelli er að lækka. Þetta er í raun eins og vel kryddaður pottréttur þar sem hver kryddtegund hefur ákveðið vægi en engin umtalsvert.“

Erfitt að biðja fólk að skila skýrslu  

Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Ísavia, eru 33 prósent þeirra farþega sem fara í gegnum Leifsstöð skráðir sem skiptifarþegar. Þá er eingöngu um að ræða þá farþega sem kaupa einn flugmiða með sama flugfélagi, en þurfa að skipta um vél á leiðinni. Hinir farþegarnir sem skipta um flugfélag á leiðinni, eru líkt og áður sagði, óþekkt breyta.

Guðni segir erfitt að greina farþegahópinn frekar nema með því …
Guðni segir erfitt að greina farþegahópinn frekar nema með því að biðja hvern og einn að skila skýrslu. Aðsend mynd

„Það er rosalega erfitt að telja þessa farþega nema biðja hvern og einn um að skila skýrslu, en okkar fólk á gólfinu sér þegar fólk er að bíða í flugstöðinni. Hjá þessum hópi er tengitíminn nefnilega oft lengri en hjá þeim sem eru með heilan miða. Tilfinning okkar er sú að þetta sé mjög lítill hluti sem hafi ekki áhrif á heildartölurnar. Ef farþegi þarf að bíða í átta tíma og skreppur í Bláa lónið, er hann þá ferðamaður eða ekki, þrátt fyrir að hann gisti ekki nótt,“ veltir Guðni upp. Hann segir þó hugsanlegt að taka stikkprufur í ákveðinn tíma til að glöggva sig betur á umræddum hópi og hve stór hann er. „Persónulega held ég þó að styrking krónunnar og hátt verð á hótelum hafi mest áhrif á fækkun gistinótta.“

Greiningardeildin horfir til skiptifarþega

Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka, tekur undir það með Guðna að verðlag og gengi krónunnar vegi mun þyngra en aðrir þættir þegar kemur að hlutfallslega minni fjölgun gistinátta miðað við fjölgun ferðamanna. Hann telur þó að það hvernig farþegar eru taldir í Leifsstöð geti haft sitt að segja og mögulega skekkt tölur um fjölda ferðamanna að einhverju leyti.

„Það getur verið liður í þessu en við höfum ekki það sundurbrot á þessum tölum til að greina það nákvæmlega. Þetta er klárlega þáttur sem getur haft áhrif og við erum meðvitaðir um að það þurfi að horfa til skiptifarþega. Þegar við gerum okkar spár þá reynum við að nálgast þetta með einhverjum hætti.

Fjölgun gistinátta hér á landi var ekki í takt við …
Fjölgun gistinátta hér á landi var ekki í takt við fjölgun ferðamanna á síðasta ársfjórðungi. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert