Fyrirframgreiðsla endurgreidd að fullu

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. mbl.is/Eggert

Formaður Öryrkjabandalagsins fékk eina milljón króna greidda úr sjóðum bandalagsins í fyrirframgreidd laun vegna íbúðarkaupa án þess að það væri borið undir stjórn þess. Ekki var gerð grein fyrir greiðslunni með réttum hætti í ársreikningi ÖBÍ að mati endurskoðanda sem vakti athygli stjórnar bandalagsins á málinu. Formaðurinn, Ellen Calmon, bað stjórnina afsökunar á stjórnarfundi í gær, samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins. Haft er eftir Bergi Þorra Benjamínssyni, gjaldkera ÖBÍ, í fréttinni að Ellen njóti fulls traust stjórnar bandalagsins. Engin tillaga um annað hafi komið fram. Ríkisútvarpið segir að átök hafi verið um málið á fundinum.

Öryrkjabandalagið hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar fréttaflutningsins þar sem segir að Ellen hafi óskað skriflega eftir fyrirframgreiddum launum til framkvæmdastjóra bandalagsins. Þegar starfsfólk óski eftir slíku sé það skoðað í hverju tilfelli og óskráð vinnuregla sé að miða við að ekki sé um að ræða hærri upphæð en þá sem starfsmaður fengi greidda á uppsagnarfresti. Ellen hafi fjögurra mánaða uppsagnarfrest. Fyrirframgreiddu launin hafi verið veitt í september 2016 og Ellen fengið skert laun í desember, janúar, febrúar og mars sem nam upphæðinni. Greiðslunnar hafi verið getið í bókhaldi sem fyrirframgreiddra launa og í ársreikningi sem skammtímakröfu þar sem gerð hafi verið grein fyrir fyrirframgreiðslunni.

„Ársreikningur var þá samþykktur og undirritaður af stjórn. Stjórn ÖBÍ fundaði á ný mánudaginn 22. maí 2017, en var sá fundur haldinn í framhaldi af stjórnarfundi á miðvikudaginn til að ræða önnur mál sem ekki var unnt að ljúka á fyrri fundi. Umræður voru á fundinum um að engar skriflegar vinnureglur væru tiltækar og því ekki um brot á reglum að ræða. Einnig var rætt um hvernig skilgreina ætti fyrirframgreidd laun. Samþykkt var tillaga um að lán til starfsfólks væru ekki heimil. Þá var samþykkt, samkvæmt ábendingu endurskoðanda, að semja vinnureglur um fyrirframgreiðslu launa. Stjórnin fól framkvæmdaráði ÖBÍ að vinna tillögu um þær sem síðan verða lagðar fyrir stjórn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert