Hugur forsætisráðherra hjá Bretum

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sendi Bretum samúðarkveðju eftir sprengjuárásina í Manchester í gærkvöldi. 22 létust og yfir 50 eru særðir eftir að sprengja sprakk á tónleikum í Manchester Arena.

„Ekkert fær útskýrt viljann til að ráðast á saklaust fólk, á börn, unglinga og foreldra þeirra, eins og gert var með grimmdarverkinu í Manchester í gærkvöldi,“ skrifar forsætisráðherra á Facebook-síðu sína.

„Engin orð ná yfir afleiðingarnar. Missinn og sorgina. Hugur minn og samúð er með öllum þeim sem misstu ástvini, með þeim sem særðust og með bresku þjóðinni.“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tjáir sig einnig um árásina. „Það er hræðilegt til þess að hugsa að voðaverkunum í Manchester hafi verið beint að ungu fólki sem naut lífsins á tónleikum,“ segir Guðlaugur Þór í færslu á Facebook. „Hugur minn og okkar er hjá þeim sem eiga um sárt að binda og bresku þjóðinni allri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert