Saga skólans á sýningu

Hollvinafélag Austurbæjarskóla í Reykjavík stendur á laugardaginn fyrir sýningu á munum skólans allt frá stofnun hans. Verður gestum boðið að líta inn milli klukkan 10 og 15 og gefst fólki þá tækifæri til að kynna sér sögu skólans í gegnum þá muni sem Hollvinafélagið hefur varðveitt.

Sumarið 1995 hófst vinna við breytingar á skólanum, sem hefur starfað frá árinu 1930, og við þær breytingar endaði mikið af munum í ruslinu. Guðmundur Sighvatsson, þáverandi skólastjóri Austurbæjarskóla og núverandi formaður Hollvinafélagsins, bjargaði, ásamt nokkrum starfsmönnum skólans, bókum og öðrum hlutum sem þóttu ómetanlegir. „Við tókum bara úr gámunum það sem verktakar voru búnir að henda,“ segir Guðmundur.

Fljótlega hófst vinna við að flokka bækurnar og tókst Arnfinni U. Jónssyni, þáverandi formanni félagsins, að fá 500 þúsund króna styrk til þess að ljúka við flokkun bókanna, ásamt því að ræða við ýmsa aðila tengda skólanum í gegnum tíðina, til þess að fá fleiri muni í safnið.

Mikill áhugi á að gefa gamla muni

Markmið sýningarinnar nú er að Hollvinafélagið geti sótt um fleiri styrki svo hægt sé að koma upp skólamunastofu, auk þess sem til stendur að skrifa sögu skólans. Þetta er þó ekki fyrsta sýningin sem félagið heldur. Á 80 ára afmæli skólans árið 2010 var haldin sýning og komust þá færri að en vildu.

„Margir voru sárir yfir að komast ekki á þá sýningu og þess vegna ákváðum við að setja hana upp aftur núna,“ sagði Sigrún Lilja Jónasdóttir, gjaldkeri félagsins. Fyrir tveimur árum var háaloftið í Austurbæjarskóla tekið í notkun og síðan þá hefur fólk sem vill leggja verkefninu lið sent Hollvinafélaginu gjafir.

Öllum frjálst að ganga í félagið

Öll vinna sem lögð er í verkefnið er unnin í sjálfboðavinnu, en í félaginu eru rúmlega 100 manns. Í fyrstu var ekki vitað hvernig ætti að koma þessu öllu upp og voru margar hugmyndir lagðar fram. Á endanum tókst þó sátt um hvernig standa ætti að þessu, og afraksturinn verður til sýnis næstkomandi laugardag.

Gamlir hlutir öðlast nýtt líf

Hollvinafélag Austurbæjarskóla var stofnað 6. febrúar árið 2010 og hafa umsvif þess, allt frá stofnun, beinst að sögu skólans og varðveislu muna í eigu hans. Félagið starfrækir skólamunastofu í skólanum, þá einu sinnar tegundar á landinu. Hvatinn að stofnun félagsins er sú langa og merka saga sem Austurbæjarskóli býr yfir, en skólinn var stofnaður árið 1930. Öllum er frjálst að ganga í félagið gegn 2.000 króna árgjaldi og vonast félagsfólk til þess að sem flestir gangi til liðs við það svo hægt verði að styðja við hið mikla og mikilvæga starf sem félagið innir af hendi, því þótt mikið hafi verið gert er enn mikið verk fyrir höndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert