Svanapar „ættleiddi“ gæsaunga

Óhefðbundna fjölskyldan virðist una sér vel.
Óhefðbundna fjölskyldan virðist una sér vel. ljósmynd/Birna Viðarsdóttir

Svanapar sem hefur komið á hverju ári á sama stað í Mýrdal og komið upp 5-6 ungum virðist nú hafa breytt til í barneignarmálum. Nú eru ungarnir þeirra tveir, en auk þess virðast þau hafa „ættleitt“ tvo gæsaunga.

Frá þessu segir Birna Viðarsdóttir á Facebook og birtir myndir af óhefðbundnu fjölskyldunni. Í samtali við mbl.is segist hún hafa fylgst með parinu í mörg ár, en það kemur alltaf á sama tíma. „Ég sá álftirnar syndandi í dag á pollinum með þessa fjóra unga. Þetta er mjög skemmtilegt,“ segir hún.

Fann unga við lappirnar á sér

„Það var líka svolítið sérstakt sem átti sér stað í fyrra. Við erum með rófugarð þarna rétt hjá og ég var úti í garði þegar ég sá allt í einu unga við lappirnar á mér. Þá voru þau farin úr hreiðrinu og þessi ungi hafði flækst frá þeim. Hann var rosalegt krútt og ég fór með hann út á Hellu til konu sem var með aðra unga og hann ólst upp þar í fyrra,“ segir Birna.

Álftin með ungana sína tvo og gæsaungana tvo sem hún …
Álftin með ungana sína tvo og gæsaungana tvo sem hún virðist hafa ættleitt. ljósmynd/Birna Viðarsdóttir

Í ár hafi parið komið á sama tíma og þegar hún hafi kíkt á það í dag hafi hún séð tvo álftarunga og tvo gæsaunga.

„Þetta hefur verið þannig að það er gæsapar sem hefur beðið eftir því að þau yfirgefi hreiðrið og fara þá og verpa á sama stað,“ segir Birna og bætir við að fyrir nokkrum árum hafi svanaparið verið með einn gæsaunga líka. „Það er sitt á hvað hvort er á undan gæsin eða álftin að verpa.“

Fylgja nýju fjölskyldunni

Hún segir engar gæsir sjáanlegar á svæðinu núna heldur aðeins ungana. Álftirnar virðast þó hafa tekið þá að sér og þeir fylgi hinni nýju fjölskyldu sinni hvert sem er.

„Svo er spurning hvernig mun ganga hjá þeim í sumar. Þau fara líklega fljótlega í burtu með ungana svo það er spurning hvort gæsaungarnir geti gengið jafnhratt. Þeir eru aðeins smærri en ætli það verði ekki bara beðið eftir þeim og farið aðeins hægar yfir,“ segir Birna. „Ég vona það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert