Auðlegðarskattur ekki í bága við lög

Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknað íslenska ríkið af kröfu dánarbús konu um að viðbótarauðlegðarskattur sem henni var gert að greiða samkvæmt álagningu á árunum 2010-2012 yrði felldur niður. Var þess krafist að íslenska ríkinu yrði gert að endurgreiða þá fjárhæð sem konunni hafði verið gert greiða vegna álagningarinnar. Féllst dómurinn ekki á það.

Reisti dánarbúið kröfur sínar meðal annars á því að skattlagningin hefði brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum konunnar, verið andstæð meginreglu stjórnskipunarréttar um meðalhóf og að um afturvirka skattlagningu hefði verið að ræða.

Skatturinn hærri en tekjurnar

Hæstiréttur féllst ekki á kröf­una, dæmdi rík­inu í vil og krafði dán­ar­búið um 1 milljón króna í máls­kostnað. Kon­an lést árið 2015, 96 ára að aldri, en hún var níræð þegar Alþingi samþykkti lög um auðlegðarskatt­inn árið 2009.

Eitt álagn­ing­ar­árið, 2011, voru skatt­greiðslur kon­unn­ar hærri en sem nam fjár­magn­s­tekj­um henn­ar og líf­eyri, eða 21,3 millj­ón­ir í skatta á meðan tekj­urn­ar námu 20,6 millj­ón­um. Hin gjaldár­in voru skatt­greiðslurn­ar um 80% og 90% af tekj­um kon­unn­ar.

Brýnt vegna velferðar almennings

Vísaði Hæstiréttur til þess að þegar auðlegðarskattur var fyrst lögleiddur hefði verið við að etja einstæðan vanda í ríkisfjármálum og brýn þörf á að afla ríkissjóði viðbótartekna. Hefði löggjafanum ekki aðeins borið réttur heldur einnig stjórnskipuleg skylda til þess að gæta velferðar almennings við þær aðstæður sem hefðu ríkt á þeim tíma. Skatturinn hefði verið lagður á afmarkaðan hóp einstaklinga sem safnað hefðu miklum eignum næstu ár á undan og notið hagstæðra skattareglna. Því hefði þótt eðlilegt við ríkjandi aðstæður að skattbyrði þess hóps yrði aukin nokkuð frá því sem áður hefði verið.

Litið var til þess að ekki hefði verið þak á skattlagningarheimildinni með tilliti til heildartekna og heildarskatta. Á hinn bóginn hefðu skattleysismörk skattsins verið miklum mun hærri en áður hefði tíðkast og skatthlutfallið verulega lægra. Þá var horft til þess að eignir R hefðu ekki rýrnað þrátt fyrir skattlagninguna heldur aukist á umþrættum árum.

Ekki um misbeitingu skattlagningarvalds að ræða

Leit Hæstiréttur svo á að í ljósi eignastöðu konunnar og tekna hennar og ætlaðs framfærslukostnaðar hafi álagning viðbótarauðlegðarskattsins umrædd ár ekki haft þau áhrif á fjárhagsstöðu konunnar að skattlagningin teldist hafa verið óhófleg eða að um misbeitingu skattlagningarvalds hefði verið ræða.

„Af þeirri niðurstöðu leiddi að skattlagningin hefði hvorki getað farið gegn réttmætum væntingum R um ráðstöfun tekna sinna og annarra eigna né hefði réttur hennar samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið brotinn.“

Þá var hvorki talið að ákvörðun löggjafans um að undanþiggja rétt manna til eftirlauna og lífeyris auðlegðarskatti né forsendur þær sem lægju að baki skattlagningunni hefðu farið í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Loks var ekki fallist á með dánarbúinu að í lögum um auðlegðarskatt hefði falist afturvirk skattlagning og að greiðendum hefði verið mismunað með tilliti til þess hvernig tilteknar eignir þeirra hefðu verið metnar sem stofn til álagningar auðlegðarskatts annars vegar og erfðafjárskatts hins vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert