Köfurum í Silfru fækkað um 40%

Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna.
Silfra á Þingvöllum hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi þeirra ferðamanna sem stundar djúpköfun í ánni Silfru á vegum fyrirtækisins Dive.is hefur fækkað um í kringum 40 prósent síðan nýjar reglur voru kynntar í mars síðastliðnum.

Reglurnar voru settar eftir að síðast varð dauðsfall í ánni.

Höskuldur Elefsen, framkvæmdastjóri Dive.is, segir að álíka margir og áður fari í yfirborðsköfun en veruleg fækkun hafi orðið á þeim sem fara í djúpköfun. Giskar hann á um 40% fækkun. Ástæðuna segir hann einfaldlega vera hertari öryggisreglur.

„Við aðlögumst þessum nýju reglum og fögnum þeim. Þetta er allt saman mjög jákvætt,“ segir Höskuldur.

Erlendir ferðamenn bíða eftir að röðin komi að þeim að …
Erlendir ferðamenn bíða eftir að röðin komi að þeim að kafa ofan í Silfru. mbl.is/Ómar

Persónulegri þjónusta

Samkvæmt nýju reglunum má einn leiðsögumaður hafa umsjón með í mesta lagi þremur djúpköfurum í stað fjögurra og í snorklinu má hver umsjónarmaður hafa sex manns á sinni könnu í stað átta. Aukin krafa er jafnframt gerð um andlegt og líkamlegt heilbrigði kafara.

„Við höfum lagt mikla áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu. Núna eftir að það eru færri viðskiptavinir á hvern leiðsögumann hefur þjónustan orðið enn þá persónulegri fyrir viðskiptavini. Við fundum það strax og þessar reglur tóku gildi að ferðirnar fóru í rauninni að ganga miklu betur og viðskiptavinir höfðu meiri tíma. Þeir fóru að njóta þess betur að fá leiðbeiningar frá leiðsögumanninum sínum,“ greinir Höskuldur frá. 

mbl.is/Ómar

Ekki alltaf uppselt í Silfru 

Hann leggur áherslu á að allt í kringum köfun í Silfru sé mjög fagmannlegt og umræðan um annað hafi verið heldur ósanngjörn. Einnig segir hann ekki rétt að alltaf sé uppselt í Silfru. Það sé einungis rétt yfir jólin og um háannatíma á sumrin.

Spurður hvort óánægja hafi verið á meðal ferðamanna um að þurfa að uppfylla strangar reglur um andlegt og líkamlegt heilbrigði segir hann að vissulega hafi menn misjafnar skoðanir. „Við höfum ekki orðið vör við mikla óánægju með þetta. Ef Það er útskýrt fyrir fólki að þetta sé gert til að tryggja öryggi þeirra skilur það betur hvers vegna þetta er gert,“ segir Höskuldur en hægt er að fylla út eyðublað vegna heilbrigðismála á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert