Misskilningurinn skemmtir

Sigurður Óttar Jónsson var stöðvarstjóri við Lagarfossvirkjun í um 30 …
Sigurður Óttar Jónsson var stöðvarstjóri við Lagarfossvirkjun í um 30 ár. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Bókaútgáfan Hólar gefur í dag út ljóðabókina Á mörkunum Sjötíu og fimm hringhendur eftir Sigurð Óttar Jónsson, sem fagnar jafnframt 75 ára afmæli sínu. „Ég lét tilleiðast vegna fjölda áskorana,“ segir höfundurinn um fyrstu bók sína.

Sigurður drakk ljóðagerð í sig með móðurmjólkinni fyrir austan. „Ég hef ort alla mína hundstíð,“ segir hann og bætir við að hann hafi erft þessa gáfu frá móður sinni, Sigríði Björnsdóttur. „Hún orti um hvaðeina sem á daginn dreif.“

Þrátt fyrir að hafa ort mikið segist Sigurður ekki hafa haft trú á sjálfum sér og því ekki hugað að útgáfu fyrr, en ákveðið í vetur að bókin skyldi koma út á afmælisdeginum. Hann segist einkum hafa ort undir hringhenduhætti og þess vegna séu aðeins hringhendur í bókinni. „Þetta er vandvirknisverk, liggur við að það sé handverk. Formið heillar frekar en efnið,“ segir hann.

Sigurður segir að ljóðin verði helst til á göngutúrum og séu um allt og ekkert. „Mér lætur best að koma með eitthvað sem hægt er að skilja á fleiri en einn hátt og misskilja á alla vegu. Misskilningurinn skemmtir mér mest og eins er gaman að yrkja eitthvað sem enginn skilur.“

Sigurður við sólarsellurnar.
Sigurður við sólarsellurnar.


Fann upp hjólið

Sigurður er ekki aðeins ljóðskáld heldur mikill handverksmaður. Hann setti upp sólarsellur við sumarbústað þeirra hjóna og smíðaði búnað sem snýr þeim þannig að þær snúa stöðugt upp í sólina og sólarljósið fellur þess vegna hornrétt á flötinn. Sjálfvirkt kerfi stjórnar hreyfingu á sellunum, sem sjá bústaðnum fyrir nægu rafmagni. „Ég gerði þetta eftir að ég hætti að vinna, varð löggiltur. Þá hafði ég tíma til þess að dunda við svona hluti. Ég hélt að ég væri að finna upp hjólið en svo hef ég séð svipaðan útbúnað á netinu. Samt getur vel verið að ég hafi verið sá fyrsti, ég veit það ekki,“ segir hann kíminn.

Sigurður var stöðvarstjóri í Lagarfossvirkjun í um þrjátíu ár. „Það var ágætis vinnustaður og ég var einn þarna mestallan tímann,“ segir hann og segist ekki hafa ort meira í einverunni en endranær. Ekki hafi heldur gefist mikill tími til ljóðagerðar að undanförnu. „Ég hef verið upptekinn við að gera upp gamla traktora,“ segir hann og bætir við að ekki sé erfitt að fá varahluti. „Það má finna allt á netinu, hvort sem er á Englandi, í Bandaríkjunum eða annars staðar.“

Úr smiðju Sigurðar

Nágrannakrytur
Þá í brand og brýnu slær
birtist vandi ærinn.
Öndvert standa óskir tvær
yfir landamærin.

„Eitt sinn skal hver deyja“
Á meðan treinist ævin ein
ótal mein þá greinast.
Vaskir sveinar bera bein
bakvið steininn seinast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert