Nauðgunardómi snúið við

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði dæmt 21 árs karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun. Var maðurinn sýknaður af öllum kröfum, þar sem Hæstiréttur taldi ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að um nauðgun hefði verið að ræða.

Atvikið átti sér stað 17. júní 2013 þegar ákærði var 18 ára en stúlkan 15 ára. Var hann sakaður um að hafa haft samræði við stúlkuna gegn vilja hennar á baðherbergi íbúðar þar sem þau voru bæði gestkomandi.

Málið var sett í rann­sókn eft­ir að stúlk­an ræddi nauðgun­ina við geðhjúkr­un­ar­fræðing á BUGL. Þar kom fram að stúlk­an hefði verið í miðbæn­um 17. júní ásamt fé­lög­um sín­um og drukkið þar tölu­vert áfengi. Fór hún síðan ásamt fé­lög­um sín­um á heim­ili manns í miðbæn­um en mundi ekki ná­kvæm­lega hvar. Þar sagði hún manninn hafa dregið hana inn á baðherbergi og komið fram vilja sínum þrátt fyrir að hún hafi neitað að gera það sem hann bað hana um. Sagðist hún ekki hafa getað spornað við verknaðnum sök­um ölv­un­ar og þreytu.

Maður­inn neitaði sök og sagði sam­far­irn­ar hafa farið fram með samþykki stúlk­unn­ar.

Ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að um nauðgun hafi verið að ræða

Hæstiréttur taldi að við samanburð á framburði stúlkunnar hjá lögreglu og fyrir dómi hafi gætt nokkurs misræmis og því væri ekki unnt að fallast á með héraðsdómi að hún hefði skýrt á sama hátt frá atvikum frá upphafi. Þá taldi Hæstiréttur ekki heldur unnt að draga þá ályktun að framburður stúlkunnar fengi stuðning framburðar vitna. Loks væri ekki til að dreifa neinum öðrum sönnunargögnum sem styddu framburð hennar, ef frá væru taldar skýrslur þeirra sem hún hefði sagt frá atvikum.

Taldi Hæstiréttur að framburður mannsins fyrir héraðsdómi og hjá lögreglu hefði í meginatriðum verið sá sami, að því undanskildu að í einni skýrslutöku hafi hann neitað að hafa haft kynmök við stúlkuna. Drægi það úr trúverðugleika hans en ekki hefði verið um að ræða þrjár ólíkar útgáfur af frásögn hans af því sem gerðist eins og álykta mætti af héraðsdómi.

„Að öllu þessu virtu taldi Hæstiréttur að héraðsdómur hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að leggja framburð A til grundvallar við úrlausn málsins, en hafna framburði X fyrir dómi þrátt fyrir að hann hefði verið álitinn „ekki ótrúverðugur“.“

Vísar Hæstiréttur til þess að maðurinn og stúlkan hafi gengið saman inn á baðherbergið og komið þaðan gangandi og orð standi gegn orði um það sem þar hafi gerst. Taldi dómurinn ósannað að stúlkan hefði verið rænulaus eða rænulítil. Var því ekki talið hafið yfir skynsamlegan vafa að um nauðgun hefði verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert