Synjun tölvuleikjabrautar vonbrigði

Notkun tölvuleikjagleraugna á EVE Fanfest í Hörpu. Stjórn IGI lýsir …
Notkun tölvuleikjagleraugna á EVE Fanfest í Hörpu. Stjórn IGI lýsir yfir vonbrigðum með að menntamálaráðuneytið hafi synjað beiðni Keilis um að sett verði af stað ný námsbraut í tölvuleikjagerð næsta haust. mbl.is/Styrmir Kári

Stjórn Samtaka leikjaframleiðenda (IGI) lýsir yfir vonbrigðum með þá ákvörðun menntamálaráðuneytisins að synja beiðni Keilis um að sett verði af stað ný námsbraut í tölvuleikjagerð næsta haust og óska eftir rökstuðningi á synjun ráðuneytisins.

Í fréttatilkynningu frá stjórn IGI kemur fram að hún telji mikilvægt að menntakerfið á Íslandi sé í takt við tækniþróun og að gífurlegar tækniframfarir hafi átt sér stað á undanförnum árum. „Þrátt fyrir allar þær miklu breytingar fá íslensk börn ekki markvissa kennslu í mörgum þeim greinum sem byggja fyrst og fremst á hugviti og skapandi hugsun,“ segir í tilkynningunni.

Sérstaðan við framtak Keilis um stofnun leikjabrautar byggi helst á þeirri staðreynd að engin braut af þessu tagi sé til á framhaldsskólastigi á Íslandi, heldur séu einungis í boði örfáir valáfangar í nokkrum skólum.

„Hefur Keilir unnið hörðum höndum að gerð brautarinnar og komið á samstarfi við IGI, CCP og fleiri aðila til að veita faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins. Þrátt fyrir þann undirbúning og þá staðreynd að fjármagn er til staðar fyrir náminu innan Keilis fær brautin ekki hljómgrunn í menntamálaráðuneytinu. IGI og CCP hafa óskað eftir frekari rökstuðningi frá menntamálaráðuneytinu vegna synjunarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert