Vonar að samningar náist á föstudag

Sjúkraflutningar. Næsti fundur í kjaraviðræðunum verður á föstudaginn.
Sjúkraflutningar. Næsti fundur í kjaraviðræðunum verður á föstudaginn. mbl.is/Ómar

Valdimar Leó Friðriksson, formaður samninganefndar Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, er vongóður um að samningar náist á föstudaginn við samninganefnd ríkisins.

„Næsti fundur er á föstudaginn og þá ættu hlutirnir að skýrast,“ segir Valdimar Leó, sem er ánægður með síðasta fund í kjaraviðræðunum sem var haldinn í gær. „Það var mjög góður fundur. Þetta er allt á réttri leið. Síðustu tveir fundir hafa skilað vel.“

Unnið er að því að semja um vanefndir á bókun um kjör og form á ráðningum sjúkraflutningamanna í hlutastörfum sem kveðið var á um í kjarasamningi frá desember 2015. Þess er krafist að sjúkraflutningamenn í hlutastörfum sitji við sama borð og aðrir starfsmenn ríkisins.

„Það átti að vera búið að klára þetta mál fyrir áramót,“ segir Valdimar Leó en viðræðurnar hafa tekið um það bil ár að hans sögn.

mbl.is/Hjörtur

Óþreyja hjá félagsmönnum 

Níutíu manns eru hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á öllu landinu, flestir á landsbyggðinni.

„Óþreyjan hjá félagsmönnum snýst um að menn kláruðu þetta ekki fyrir áramót eins og til stóð. Núna er maður vongóður. Við sjáum hvað setur á föstudaginn. Ég þori ekki að giska á hvað gerist ef við klárum þetta ekki á næstu dögum,“ bætir hann við en sumarfrí eru á næsta leiti.

Sjö sjúkraflutningamenn starfa á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi. Sex þeirra, sem eru allir í hlutastarfi, sögðu upp í apríl. Uppsagnir þeirra eiga að taka gildi á föstudaginn eftir að þeim var frestað um eina viku.

Valdimar Leó kveðst ekki vita hvaða áhrif það mun hafa á uppsagnir þeirra ef samið verður á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert