Dapurleg síðustu Síldarævintýri

Gunnar segir bæinn ætla að leggja áherslu á Trilludaga, enda …
Gunnar segir bæinn ætla að leggja áherslu á Trilludaga, enda margir um hituna um verslunarmannahelgina. Sigurður Bogi Sævarsson

„Undanfarin ár hefur verið mjög dræm mæting á þessa hátíð. Það hefur verið ansi dapurt og veðrið kannski sett strik í reikninginn,“ segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, um Síldarævintýri á Siglufirði sem haldið hefur verið árlega síðan 1991. Hátíðin hefur hins vegar verið blásin af í ár vegna áhugaleysis. „Það var auglýst eftir aðilum til að taka þetta að sér, með fjárstuðningi frá bænum, en það sýndi því enginn áhuga. Það er orðin svo mikil samkeppni um verslunarmannahelgina, hátíðir út um allt.“

Gunnar viðurkennir að það sé vissulega dapurlegt að blása Síldarævintýrið af eftir öll þessi ár, en það er huggun í harmi að önnur hátíð, Trilludagar, fer fram í bænum helgina á undan og verður nú allt kapp lagt í að gera hana sem glæsilegasta. „Trilludagar voru vel sóttir í fyrra og þannig verður það eflaust aftur í ár. Bærinn leggur áherslu á að standa fyrir Trilludögum sem eru öðruvísi en hefðbundin verslunarmannahelgarhátíð.“

Það verður engin hátíð á Siglufirði um verslunarmannahelgina.
Það verður engin hátíð á Siglufirði um verslunarmannahelgina. Sigurður Bogi Sævarsson

Gunnar segir Trilludaga ætlaða fjölskyldufólki, innanbæjar sem utanbæjar og erlendum ferðamönnum. „Fólki verður boðið að fara í sýningartúra út á fjörð, á sjóstöng, svo verður pylsuhátíð og hljómleikar. Þetta verður bara skemmtileg bæjarhátíð.“

Gunnar útilokar ekki að Síldarævintýrið verði endurvakið í framtíðinni, en þá verði einhver að sýna áhuga á því að standa fyrir hátíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert