Skagfirðingur með ástríðu fyrir brids

Sigurpáll Árnason hefur gaman af því að spila brids og …
Sigurpáll Árnason hefur gaman af því að spila brids og hlakkar til spilastunda með félögum sínum. mbl.is/Hanna

Sigurpáll Árnason, gjarnan kenndur við Lund í Varmahlíð í Skagafirði, fagnar 100 ára afmæli í dag. Hann fæddist í Skagafirði og bjó þar allt til ársins 1999, að hann fluttist í Kópavoginn ásamt konu sinni, Hildi Kristjánsdóttur. Hildur lést árið 2004.

Spurður um áhugamálin segist Sigurpáll spila brids af mikilli ástríðu.

„Það voru alltaf mót tvisvar í viku í Gullsmáranum, 40 og stundum 42 borð,“ segir hann og kvaðst einhvern tímann hafa unnið rauðvínsflösku. Hann flutti spilamennskuna með sér yfir á Hrafnistu í Boðaþingi þar sem hann hefur dvalið síðan í mars.

Þegar Morgunblaðið heimsótti Sigurpál í gær átti hann von á þremur spilafélögum í heimsókn, en sjálfur heldur hann bridsmót við lítið fallegt borð inni í íbúðinni sinni í Boðaþingi. Áður tefldi hann líka, en það er orðið lengra síðan hann tók skák. Á borðinu lá 200. tölublað Morgunblaðsins, en það er frá 25. maí 1917, daginn sem hann fæddist. Sigurpáll er við fína heilsu og les bækur án gleraugna. „Helst les ég ævisögur,“ segir hann.

Sigurpáll hefur fengist við margt skemmtilegt, en hann var einnig kaupmaður og garðyrkjubóndi.

„Ég safnaði fyrir garðyrkjunáminu með því að selja bækur fyrir Ísafold, gekk um sveitirnar. Í stríðinu seldi ég svo hermönnunum tómata,“ segir Sigurpáll, sem bjó áður í Varmahlíð í Skagafirði þar sem hann byggði gróðurhús 1943 og ræktaði tómata, gúrkur og sumarblóm. „Ég keyrði fyrstur á Willys-jeppa yfir Siglufjarðarskarð, bara til að gá hvort ég kæmist,“ segir hann en upplit var á Siglfirðingum þegar hann birtist á K-númerum þeim megin, áður en vegurinn var tilbúinn. Einnig rak hann verslunina Lund í Varmahlíð, frá 1958 til 1974. Hann keypti jörðina Íbishól í Skagafirði, en þar var hann með 4-500 kindur þegar mest var og fjárhundinn knáa, Vask.

Sigurpáll segist hafa gaman af ferðalögum og hefur komið víða. Hann fór m.a. í kórferðalög með Karlakórnum Heimi til Kanada, Egyptalands og Ísraels.

Ekki komst hann til Nýja Sjálands á sínum tíma, foreldrum hans fannst hann ætla fulllangt í burtu úr Skagafirðinum. Þess í stað fór hann í garðyrkjunámið í Hveragerði. Skemmtilegast fannst honum að fara í Evrópuferð ásamt konu sinni, Hildi, og sex öðrum hjónum. Sigurpáll og Hildur eignuðust fimm börn en hann á nú 42 afkomendur. Sá yngsti fæddist núna í vikunni. ernayr@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert