„Allt útpælt“ hjá Costco

Umræður um Costco vekja upp miklar tilfinningar hjá fólki.
Umræður um Costco vekja upp miklar tilfinningar hjá fólki. mbl.is/Ófeigur

„Þetta er allt útpælt og með vilja gert,“ segir Einar Benedikt Sigurðsson, framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Tjarnargatan, betur þekktur sem Einar Ben. Hann trúir ekki öðru en að það sé einhver snillingur sem sér um kynningar- og markaðsmál hjá Coscto á Íslandi. „Ég skora á þann aðila sem vinnur í markaðs og PR-starfinu hjá Costco að stíga fram. Ég vil bóka hann á fyrirlestur. Ef maður myndi reyna að meta umfjöllunina sem þeir hafa fengið, bæði í fjölmiðlum og hjá neytendum, til fjár í auglýsingum, þá erum við að tala um háar upphæðir.“

Einar vill meina að um sé að ræða útpælda markaðsherferð sem snýst í raun um að gera sem minnst. Auglýsa sem minnst og sleppa öllum íburði, hvort sem er í heimasíðumálum eða öðru.

Fyrirtækið hefur ekki mikið verið að auglýsa sig, heldur hafa viðskiptavinir og fjölmiðlar séð um það. Heimasíðan þeirra er mjög hrá og textarnir á sumum stöðum eins og þeim hafi verið rennt í gegnum Google Translate. En þetta er að virka. Viðskiptavinir tala um heimasíðuna og hlæja að henni, en vekja þannig athygli á Costco.

Einar er sannfærður um að einhver snillingur sé að baki …
Einar er sannfærður um að einhver snillingur sé að baki markaðsherferð Costco á Íslandi. Mynd/Marinó Flóvent

„Þetta er ekkert nema ímyndarvinna. Þeir eru að sýna að þeir eyði ekki peningum í óþarfa. Þetta fer allt í verðlagninguna. Það að „copy/paste-a“ heimasíðuna sýnir fólki að þeir eru svo ódýrt félag að þeir eyði ekki einu sinni peningum í heimasíðuna.“

40 þúsund manns í Facebook-hóp 

Stofnaðir hafa verið nokkrir Facebook-hópar í tengslum við Costco á Íslandi, en langfjölmennastur þeirra er „Keypt í Costco Ísl. Myndir og verð.“ Hópurinn telur tæplega 40 þúsund félaga og fjölgar þeim mjög ört. Þar deilir fólk myndum og upplýsingum um verð á vörum. Spyrst fyrir um vörur. Ræðir um gæði vara og fleira. Áhuginn er gríðarlegur og skoðanirnar sterkar. Annar og fámennari hópur ber nafnið „Costco verðvaktin“. Hann telur um 3.000 félaga og nafnið á hópnum segir í raun allt um það sem fer þar fram.

Einar segir fjölmiðla og neytendur í raun vinna saman að því að auglýsa Costco. Áhuginn er svo mikill, þess vegna fjalli fjölmiðlar um málið, og það vindi upp á sig.

„Þetta eru mest lesnu fréttirnar, bæði djókfréttirnar og alvörufréttirnar. Það er stór hópur fólks sem hefur sterkari skoðanir á verðlagningu í Costco en öllum pólitískum ákvörðunum sem teknar hafa verið á Íslandi. Það var einhver sem skrifaði í Facebook-hópinn: „Það fæst allt í Costco nema sjálfsvirðingin.“ Margir voru reiðir yfir þessu innleggi og sögðu til að mynda að það væri sjálfsvirðing að ráðstafa þeim aurum sem stritað væri fyrir á sem bestan máta. Þannig að það er ljóst að það eru miklar tilfinningar í spilinu.“

Allir þjóðfélagshópar fara í Costco 

Einar bendir á að Costco komi vissulega inn á markaðinn með bullandi forgjöf. Það sé erfitt fyrir hvaða fyrirtæki sem er að keppa við slíkan risa sem í flestum tilfellum er með besta verðið.

Costco virðist heilla landann upp úr skónum.
Costco virðist heilla landann upp úr skónum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þeirra ímynd og orðspor sem fyrirtæki sem selur ódýrar vörur er það sterkt að þeir gátu haldið viðburð sem fólk mætti á áður en það mátti versla. Það skal enginn segja mér að einhver hefði mætt á slíkan viðburð hjá einhverri annarri verslun. Þetta er svo mikil upplifun fyrir fólk. Það er allt svo stórt. Við erum að fá smá áminningu um það hve lítil við erum í raun og veru.“

Meirihluti Íslendinga virðist fagna komu Costco og telja að tilkoma verslunarinnar muni hafa jákvæð áhrif á vöruverð á Íslandi. Verslunin virðist ekki eingöngu vera að höfða til ákveðins hóps, heldur er fólk úr öllum þjóðfélagshópum að versla í Costco. Þarna úti er engu að síður hópur sem telur að Costco-áhrifin verði ekki til góðs til lengri tíma litið. Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, er ein þeirra. Hún birti hugleiðingar um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagði meðal annars: „Þessi þróun hefur vond áhrif á vöruverð, skipulag, samgönguhætti og mannlíf í byggð til lengri tíma og það verður alltaf erfiðara og erfiðara að vinda ofan af henni.“

Íslendingar virðast upp til hópa mjög ánægðir með Costco.
Íslendingar virðast upp til hópa mjög ánægðir með Costco. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar bendir á að einmitt vegna svona skoðana fólks sé bæði ímyndarvinna og kynningar- og markaðsfulltrúar nauðsynlegir. „Ef það er í alvöru enginn í PR-málum hjá þeim þá er það líka ákveðinn skellur. Þetta hefði alveg geta farið í hina áttina. Ef tónninn hjá meirihlutanum hefði verið meira í áttina að því sem Sóley Tómasdóttir benti á, þá hefðu þeir þurft að taka krísustjórnun á þetta. Það eru svo miklir peningar undir og þetta er svo stórt að það hlýtur einhver að vera að fylgjast með til að gera gripið inn í ef þess er þörf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert