Eru stjórnarliðar hræddir?

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu fjarvistir ráðherra í umræðum um fundarstjórn forseta á Alþingi í dag. Umræður um fjármálaáætlun 2018-2020 fara fram og þingmönnum þóttu fjarvistir ráðherra bagalegar.

„Ég geri alvarlegar athugasemdir við fjarveru ráðherra í umræðunni um ríkisfjármálaáætlun,“ sagði Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. „Ég geri sérstakar athugasemdir við fjarveru menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, en mikil gagnrýni hefur verið á þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á,“ bætti Elsa við.

Hún sagði að hún vissi að heilbrigðisráðherra væri ekki í þinginu þessa viku en honum sem öðrum ætti að vera kunnugt um að þessa viku yrði ríkisfjármálaáætlun til umræðu. „Það er því afar vont að ráðherrar mæti ekki og reyni að taka til greina þær athugasemdir sem þingmenn leggja til í umræðunni um ríkisfjármálaáætlun.“

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getum tæpast lokið umræðunni

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, var á sama máli og Elsa Lára. Hún sagði umræðu um heilbrigðismál í uppnámi og óásættanlegt að heilbrigðisráðherra sé fjarverandi umræðu í heila viku. 

Er ekki rétt mat hjá mér að við getum tæpast lokið umræðu um ríkisfjármálaáætlun á meðan heilbrigðisráðherra er hér ekki til að taka þátt í umræðunni?“ spurði Svandís.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Kristinn

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, velti því fyrir sér hvort þingmenn og ráðherrar stjórnarmeirihlutans væru hræddir. „Þeir virðast skirrast við að taka þátt í umræðum um sitt stærsta mál. Kannski vegna þess að það er svo bullandi ósætti innanhúss um sjálfa áætlunina að það afhjúpast í hvert sinn sem hér stígur í pontu þingmaður frá meirihlutanum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert