Leita að Reykvíkingi ársins

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með bræðrunum Kristjáni og Gunnari Jónassonum, …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með bræðrunum Kristjáni og Gunnari Jónassonum, kaupmönnum í versluninni Kjötborg. Þeir voru valdir Reykvíkingar ársins 2014 fyrir mikilvægt starf að samfélagsmálum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Borgarstjóri óskar nú eftir tilnefningum um Reykvíking ársins 2017. Leitað er að einstaklingi sem með háttsemi sinni eða atferli hefur verið til fyrirmyndar á einhvern hátt og er þetta í sjöunda skipti sem valið fer fram.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að tilgangurinn með valinu sé að leita að einstaklingi sem með háttsemi sinni eða atferli hafi verið til fyrirmyndar á einhvern hátt. Til greina komi aðeins þeir sem lagt hafi borginni lið, t.d. með því að halda borgarlandinu hreinu með ólaunuðu framlagi sínu, sýnt af sér djörfung og dug eða unnið Reykjavíkurborg og samfélaginu í borginni til góða með einhverjum hætti. 

„Ég hvet borgarbúa til að tilnefna Reykvíking ársins. Þeir einstaklingar sem hafa hlotið titilinn undanfarin ár eru sannarlega til fyrirmyndar,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í tilkynningunni.

Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum, en borgarbúar geta sent inn tilnefningu um þá sem þeir telja eiga titilinn skilið á netfangið hugmynd@reykjavik.is. Frestur til að senda inn tilnefningar er til 10. júní.

Meðal þeirra sem áður hafa hlotið titilinn Reykvíkingur ársins eru hjónin Reinhard Reinhardsson og Karólína Inga Guðlaugsdóttir fyrir ræktunarstarf sitt í Selási, Hanna Guðrún Sigurjónsdóttir þroskaþjálfi fyrir flokkun á rusli og umhverfisvernd í Kóngsbakka og bræðurnir Kristján og Gunnar Jónassynir, kaupmenn í versluninni Kjötborg, fyrir mikilvægt starf að samfélagsmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert