Nemendum verði tryggt óbreytt nám

Tækniskólinn.
Tækniskólinn. Af vef Tækniskólans

Nemendum, sem nú stunda nám við Fjölbrautaskólann við Ármúla, verður tryggt að nám þeirra verði óbreytt komi til sameiningar við Tækniskólann og að þeir geti lokið námi sínu á sömu forsendum og þeir hófu námið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Jóni B. Stefánssyni, skólameistara Tækniskólans. Þar gerir hann athugasemdir við yfirlýsingu framkvæmdastjórnar Sambands Íslenskra framhaldsskólanema um mögulega sameiningu skólanna.

Ekki sé því rétt að óvissa sé með nám þeirra nemenda sem stunda nám við FÁ komi til sameiningar skólanna. „Mikilvægt er að upplýsingar sem settar eru fram séu réttar og því eru þessar athugsemdir gerðar.“

„Einnig hefur framkvæmdastjórnin áhyggjur af nemendum sem innritast í FÁ og hefja nám sitt á haustönn 2017. Nemendur sem skrá sig til náms á haustönn 2017 munu stunda það nám sem þeir skrá sig í hvort sem komi til sameiningar skólanna eða ekki,“ segir í yfirlýsingunni.

Segir Jón rétt nemenda til náms vera tryggðan með sama hætti og gert hafi verið við fyrri sameiningar og sá réttur hafi verið að fullu virtur „og ekki komið til árekstra vegna þess.“

Skólagjöld í Tækniskólanum og öðrum skólum sambærileg

Að mati framkvæmdastjórnarinnar snúist val á framhaldsskóla mikið um staðsetningu skólans og hefur stjórnin áhyggjur af því að nemendur geti ekki stundað nám nálægt heimili sínu. Jón segir nemendur sem stunda nám við FÁ vera af öllu höfuðborgarsvæðinu enda sé nemendum frjálst að velja þann framhaldsskóla sem þeir kjósa óháð staðsetningu skólans. „Stefna TS er og hefur verið að nemendur skólans sem skrá sig til náms stundi námið á þeim stað sem þeir velja við innritun. Möguleg sameining skólanna hefur ekki áhrif á val nemenda um staðsetningu náms.“

Þá séu skólagjöld í TS og öðrum framhaldsskólum sambærileg miðað við sambærilegar námsbrautir. Segir Jón skólagjöld í TS vera sett upp með öðrum hætti en í öðrum framhaldsskólum þannig að gjald vegna félagslífs nemenda og nemendastarfs sé inni í skólagjöldum TS. Í flestum öðrum framhaldsskólum sé gjaldið innheimt sérstaklega til viðbótar við innritunargjöld. „TS innheimtir ekki þjónustugjöld af nemendum eins og víða er gert, m.a í FÁ, og eru gjöldin því fyllilega sambærileg á milli FÁ og TS, séu sambærilegar brautir bornar saman eins og stúdentsbrautir í báðum skólum.“

Loks bendir Jón á að framkvæmdastjórn sambandsins spyrji hvort framhaldsskólar eigi að vera opnir nemendum 25 ára og eldri „og fagna ég þeirri spurningu og hef þá skoðun að framhaldsskólinn eigi að vera opinn nemendum eldri en 25 ára eins og hann hefur verið,“ skrifar Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert