Segja ríkið hafa dregið lappirnar

mbl.is/Hjörtur

Landssamband lögreglumanna (LL) hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fagnað er samkomulagi sem Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og ríkið undirrituðu í gær. Þar segir að samkomulagið sé byggt á bókun sem samningsaðilar hafi undirritað með kjarasamningi í desember 2015. Samkomulagið nær til sjúkraflutningamanna í hlutastarfi en nær allir sjúkraflutningamenn í hlutastarfi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi höfðu sagt upp störfum vegna málsins.

„LL lýsir hins vegar yfir furðu sinni að ríkið hafi dregið lappirnar þannig að ekki hafi verið búið að ljúka þessu samkomulagi fyrr. LL vonar innilega fyrir hönd íbúa á Blönduósi og nágrenni að samkomulagið hafi náðst í tæka tíð og að sjúkraflutningamenn muni aftur snúa til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands,“ segir í tilkynningunni og enn fremur:

„Þá vill LL vekja athygli á að ríkisvaldið á enn eftir að ljúka bókun sem fylgdi síðasta kjarasamningi lögreglumanna og vonar að ekki komi til uppsagna lögreglumanna líkt og hjá sjúkraflutningamönnum, áður en lögreglumönnum verði boðið að ljúka bókuninni. Þeir hafa upplifað fádæma fálæti af hendi vinnuveitanda síns í viðræðum sem átti að vera lokið fyrir 10. desember 2015.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert