Borgar sig að búa í Árborg

Kátir drengir í Vinnuskóla Kópavogs
Kátir drengir í Vinnuskóla Kópavogs Ljósmynd/Kópavogsbær

Laun nemenda vinnuskólanna hafa hækkað um allt að 16% milli ára í samræmi við kjarasamninga. Vinnuskólar eru starfræktir í flestum sveitarfélögum á landinu á sumrin. Misjafnt er milli sveitarfélaga hversu mikið launin hafa hækkað, hver þau eru og hvaða aldri bjóðast þessi störf.

Eftir lauslega samantekt mbl.is hjá stærstu sveitarfélögum landsins gefur það best í aðra hönd að vinna í unglingavinnunni í Árborg en ekki eins vel í Mosfellsbæ. Munurinn er í flestum tilvikum þó ekki ýkja mikill.

Það fá ekki allir að vinna hjá sveitarfélaginu sínu. Til að mynda fá nemendur sem hafa lokið við 8. bekk í Reykjavík ekki starf hjá borginni heldur eingöngu þeir nemendur sem hafa lokið 9. og 10. bekk. Hins vegar eiga nemendur sem hafa lokið við 7. bekk á Egilsstöðum kost á að að stunda unglingavinnu í sumar. Þeir fá greiddar 435 krónur á klukkutímann.

Á eftirfarandi grafi má sjá hvernig launin skiptast eftir aldri milli sveitarfélaga.

Fjölbreytt störf en mismikil vinna í boði

Í flestum sveitarfélögum er öllum tryggð vinna sem óska eftir því. Vinnutímabilið er oftast í kringum sex vikur og er unnið um hálfan dag í senn, ýmist fjóra eða fimm daga vikunnar. Störf í vinnuskólanum eru fjölbreytt, allt frá því að starfa við skógrækt, slá gras, aðstoða á leikjanámskeiðum eða í leikskólum svo fátt eitt sé nefnt. Eftir að hafa skoðað heimasíður sveitarfélaganna ætti að vera fjölbreytt úrval að margskonar vinnu fyrir þetta unga fólk.  

Nemandi í Árborg  sem hefur lokið 9. bekk og er fæddur árið 2002 er með 677 krónur á tímann getur vænst þess að vinna sér inn tæplega 106 þúsund krónur. Að því gefnu að hann vinni í 6,5 tíma á dag fjóra daga vikunnar eða alls 156 klukkustundir. Jafnaldri hans í Reykjavík  getur hins vegar vænst þess að vinna sér inn rúmlega 63 þúsund krónur en hann fær einungis vinnu í 105 klukkustundir hjá borginni. Misjafnt er milli sveitarfélaga hversu mikil vinna er í boði.

Það er ekki amalegt að vinna við að gróðursetja í …
Það er ekki amalegt að vinna við að gróðursetja í sumar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

310 þúsund fyrir nemanda í 10. bekk

Yngstu nemendurnir á Egilsstöðum sem hafa lokið við 7. bekk mega vinna 105 klukkustundir sem eru alveg jafn margar vinnustundir og nemendur sem hafa lokið við 9. og 10. bekk í Reykjavík. Þessir duglegu unglingar á Egilsstöðum geta því vænst þess að vinna sér inn 45 þúsund krónur.

Einnig á Egilsstöðum getur nemandi sem hefur lokið 10. bekk unnið sér inn um 310 þúsund krónur fyrir 357 klukkustunda vinnu. Þennan tímafjölda gefst nemendum í 9. bekk einnig kostur á að vinna yfir sumarið á Egilsstöðum en þeir eru þó með aðeins lægra tímakaup.  

Skráning í vinnuskólann stendur yfir í flestum bæjarfélögum. Í Reykjavík er reiknað með í kringum 1000 nemendum í fyrra voru skráðir 1175 nemendur. Á Akureyri er útlit fyrir að umsóknir verði aðeins færri fyrir þetta sumar en á því síðasta. 

Það er greinilega gaman hjá þessum í unglingavinnunni.
Það er greinilega gaman hjá þessum í unglingavinnunni. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert