Hlakkar til að vinna fyrir félagið

Hrafnkell Hringur Helgason fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík.
Hrafnkell Hringur Helgason fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

„Mér líður eins og samstarfið verði mjög gott,“ segir Hrafn­kell Hring­ur Helga­son list­fræðinemi sem var í gær sjálfkjörinn formaður Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík. Eins og fjallað hefur verið um skoraði hann Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á hólm, sem tilkynnti síðar að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

Hafði Hrafnkell gagnrýnt Bene­dikt fyr­ir að vera formaður félagsins á sama tíma og hann skæri niður fjármagn til fram­halds­skól­anna. Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra sagði sig í kjölfarið úr stjórninni af sömu ástæðum og Benedikt.

Frétt mbl.is: Skor­ar fjár­málaráðherra á hólm

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sóttist ekki eftir endurkjöri.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sóttist ekki eftir endurkjöri.

Stundin greindi frá því á dögunum að stjórnarmenn félagsins gætu vart hugsað sér að gegna áfram störfum nema Benedikt yrði áfram formaður. Spurður um það hvort hann hafi fundið fyrir þessu á fundinum í gær svarar Hrafnkell neitandi. „Þetta fór allt prúðmannlega fram.“

En hvað tekur við hjá félaginu? „Að halda áfram því góða starfi sem félagið hefur verið að vinna að. Við erum að safna þó nokkrum milljónum á ári en ég vil gera betur,“ segir Hrafnkell. „Ég vil reyna að ná til ungra stúdenta, en það hefur gengið illa síðustu ár, finna út hverju skólinn þarf á að halda og reyna að hjálpa til við það.“

Segist hann ekki ætla að gjörbreyta félaginu en hann muni samt sem áður leggja til að sendar verði fleiri áskoranir á Alþingi. „En stjórnin hefur ekki hist enn þá svo ég á eftir að heyra í þeim líka. Þó að ég sé formaður þá er ég bara með eitt atkvæði.“

Vongóður um framhaldið

Að sögn Hrafnkels mættu um 40-50 manns á fundinn í gær og segist hann þakklátur fyrir góða mætingu. Segir hann fundinn hafa verið mjög góðan og hann sé vongóður um framhaldið.

Ekki er komin dagsetning á fyrsta fund nýju stjórnarinnar, en auk Hrafnkels eru stjórnarmenn nú sjö. Þar sem Þorsteinn hætti þarf að finna nýjan stjórnarmann í hans stað og segir Hrafnkell að ráðist verði í það strax á fyrsta fundi. Hann verði vonandi sem allra fyrst.

Hrafnkell segist hafa talað við nokkra stjórnarmenn nú þegar, og út frá þeirra samtölum sýnist honum að samstarfið muni ganga vel. „Ég hlakka bara til að vinna fyrir félagið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert