Þungbúnir dagar fram undan

Spákortið kl. 12 á hádegi í dag, sunnudag.
Spákortið kl. 12 á hádegi í dag, sunnudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Fremur þungbúinna daga er að vænta á næstunni að mati veðurfræðings Veðurstofu Íslands. Austlæg átt verður ríkjandi og rigning eða súld með köflum. Á morgun verður meiri vindur en að undanförnu og hvassast verður allra syðst. Húsbílar og aðrir vagnar sem taka á sig mikinn vind þurfa þá að fara gætilega, alla vega undir Eyjafjöllum og við Reynisfjall. Einnig má búast við allhvössum vindi á Vestfjörðum. „Þótt lítið sjáist til sólar er þokkalega milt á landinu og stefnir þessi maímánuður í að verða einn af þeim hlýrri á þessari öld, enda ber gróðurfar þetta vorið þess glögg merki,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurvefur mbl.is.

Spá næsta sólarhrings er þessi:

Suðlæg átt, 3-10 m/s, en austan 5-10 m/s nyrst. Rigning með köflum, en úrkomulítið austanlands. Lægir og styttir víða upp í kvöld og nótt. Gengur í austan 10-18 á morgun, hvassast við suðvesturströndina. Rigning sunnan- og vestanlands, en þurrt norðaustan til. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á þriðjudag:
Austan 5-13 m/s, hvassast á annesjum norðan til. Skýjað og víða rigning, einkum sunnan- og vestanlands. Styttir upp suðvestan til um kvöldið. Hiti 6 til 12 stig, mildast á Norðurlandi.

Á miðvikudag:
Suðaustan og austan 3-10 m/s, hvassast syðst og nyrst. Skýjað og væta með köflum, en þurrt að kalla norðaustanlands. Hiti 6 til 14 stig, mildast um landið vestanvert.

Á fimmtudag:
Gengur í strekkingsaustanátt, en hvassviðri eða stormur syðst. Rigning sunnan- og vestanlands, en þurrt norðaustan til. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast norðanlands.

Á föstudag og laugardag:
Suðaustlæg átt með vætu, einkum suðaustan til, en úrkomulítið norðanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðan- og vestanlands.

Á sunnudag (hvítasunnudag):
Suðaustlæg átt, skýjað suðvestan- og vestanlands, en annars víða bjart veður. Áfram milt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert