Framkvæmdastjóri án þess að muna það

Maðurinn bar fyrir sig minnisleysi vegna fíkniefnaneyslu og vildi jafnframt …
Maðurinn bar fyrir sig minnisleysi vegna fíkniefnaneyslu og vildi jafnframt lítið gefa upp um það sem hann vissi. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í síðustu viku karlmann á fertugsaldri í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða rúmlega 30 milljóna króna sekt til ríkissjóðs fyrir meiriháttarbrot gegn skatta- og bókhaldslögum, sem framkvæmdastjóri einkahlutafélags. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna skal ákærði sæta fangelsi í 360 daga.

Ákærða er gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna frá mars til apríl og til og með nóvember til desember rekstrarárið 2008, og jafnframt fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna þessara tímabila. Þá er honum gefið að sök bókhaldsbrot með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald fyrir einkahlutafélagið á rekstrarárinu 2008 og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn með fullnægjandi hætti.

Neitaði að upplýsa um bókhaldsögn

Í dómnum segir að í skýrslutöku hjá lögreglu hafi ákærði borið fyrir sig minnisleysi vegna fíkniefnaneyslu á þeim tíma er um ræðir. Þá dró hann í efa skráningu fyrirtækjaskrár þar sem hann var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélagsins.

„Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa skrifað undir tilkynningar til fyrirtækjaskrár sem honum voru sýndar. Þá kvaðst hann ekki hafa ætlað sér að ganga í stjórnina, svo hann muni eftir. Ákærði neitaði að tjá sig um það hver hefði farið með fjármálastjórn fyrirtækisins og tekið ákvarðanir varðandi skattskil. Þá vildi hann ekki upplýsa um aðkomu sína eða annarra að þessum málefnum. Hann neitaði að upplýsa um hvort bókhald hefði verið fært eða hvar bókhaldsgögn væru geymd. Þá vildi hann ekki tjá sig um það af hverju virðisaukaskattsskýrslum hefði ekki verið skilað,“ segir í dómnum.

Samkvæmt framburði ákærða sjálfs hjá skattrannsóknarstjóra var starfsemi í umræddu félagi og reikningar gefnir út á þess vegum vegna útseldrar vinnu. Samræmist það gögnum málsins. Hann lýsti því að félagið hefði stundað viðskipti, meðal annars leigt út vinnuafl og tekið að sér verkefni við smíðar. Niðurstaða dómsins er því sú að ákærða hafi borið að sjá til þess að bókhald væri fært í samræmi við lög og venjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert