„Freki karlinn ræður“

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

„Varnarlaus smáþjóð þarf traustan bandamann. Þegar Bandaríkin segja pass verðum við að efla tengslin við bræðraþjóðir í Evrópu. Það er ekki um aðra bandamenn að ræða.“ Þetta sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, í ræðu sinni á eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Hann sagði blikur á lofti í alþjóðamálum og benti á að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefði boðað að Evrópulönd gætu ekki reitt sig lengur á Bandaríkin. „Íslendingar kynntust því árið 2008, að þegar við þurftum á hjálparhönd að halda þá ýttu Bandaríkjamenn okkur frá sér. Þeir líta greinilega svo á að ef á móti blæs eigi Íslendingar að leita til Evrópu. Evrópuþjóðirnar töldu aftur á móti að við værum ekki í þeirra liði.“

Benedikt sagði Íslendinga hafa borið til þess gæfu að hafna þeim öfgaöflum sem víða hefðu náð miklum styrk. Öfgaöflum sem vildu loka landamærum og hafna frjálsum viðskiptum. „Í heimi lýðskrumaranna þurfa frelsi, jafnrétti og bræðralag að víkja fyrir höftum, forréttindum og hatri. Á Íslandi er meiri jöfnuður en í nágrannalöndunum og heilbrigðiskerfi í fremstu röð í heiminum.“

 Bætt lífskjör með Costco

Hann sagði Íslendinga hafa síðustu daga verið rækilega minnta á gildi frjálsrar samkeppni og alþjóðavæðingar til að bæta lífskjör í landinu, en ætla má að hann hafi þar átt við opnun verslunar Costco í Garðabæ. „Samt sjáum við á hverjum degi fjölmarga berjast gegn tímans þunga nið, þeir ríghalda í allt sem gamalt er og formæla breytingum, þó að þær horfi til heilla.“

Benedikt sagði Íslendinga hafa verið heppna á árum áður þegar framsæknir foringjar í stjórnmálum voru menn sem þorðu að leiða þjóðina til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi með vinaþjóðum, samstarfi sem hefur orðið öllum til góðs. „Þar nægir að nefna aðildina að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en AGS leiddi okkur út úr hruninu og NATO sem hefur tryggt frið í Vestur-Evrópu allt frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Ekki má gleyma aukaaðildinni að Evrópusambandinu í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, en með henni höfum við bæði náð hagstæðum viðskiptum við 500 milljóna samfélag og þiggjum þaðan stóran hluta af okkar löggjöf.“

 Sá vægir sem vitið hefur meira

Benedikt sagði það stundum virðast náttúrulögmál að engu mætti breyta í samfélaginu og sagði litla smásögu sem vinur hans skrifaði: „Menn skiptast í tvennt: harmavalda og gæfusmiði. Harmavaldarnir eru ágengir, metnaðarfullir og stjórnsamir. Gæfusmiðirnir eru fjölbreytilegir og hógværir. Nánar þarf ekki að lýsa þeim. Ljósti af einhverri ástæðu saman harmavaldi og gæfusmiði þá hugsar gæfusmiðurinn sem svo: Eins og Platón lít ég svo á að illskárra sé að vera kúgaður en að kúga. Íslendingar orðuðu þetta fyrrum svofeldlega: Sá vægir sem vitið hefur meira.“

Nú er hins vegar tónninn annar, að mati Benedikts. „Núna segjum við: Freki karlinn ræður. Freki karlinn sem engu vill breyta og allt þykist vita. Hann segir: „Þó að allt stefni í óefni skulum við aldrei, aldrei víkja frá þeirri stefnu sem ég hef ákveðið að sé rétt.“

Hann telur lítinn vafa á því að myntstarf þar sem gengi krónunnar væri bundið við evru myndi leiða til þess að útflutningsatvinnugreinar okkar, til dæmis hugbúnaðargerð, tæknifyrirtæki, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, stæðu miklu betur en raun ber vitni.

 Allir gleðjast þegar vel gengur

Benedikt sagði rauða þráðinn í málflutningi Viðreisnar vera almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Þetta slagorð hefði oft reynt á, til að mynda í sjómannaverkfallinu þegar flokkurinn stóð gegn sérstökum skattaívilnunum til sjómanna.

„Við viljum líka hætta skattaívilnunum til ferðaþjónustunnar. Auðvitað er sanngjarnt að stærsta greinin sé í sama rekstrarumhverfi og aðrar greinar. Sanngirni er ekki einu rökin, því að breyting á virðisaukaskatti mun bæði gefa færi á að lækka almennt þrep skattsins, almenningi til hagsbóta, og hægja á vextinum á fjölda ferðamanna til landsins. Þessi hraði vöxtur veldur því að krónan hefur styrkst svo mjög að hún ógnar hag allra útflutningsgreina í landinu.“

Hann sagði samkeppnishæfni greina aldrei verða tryggða með mismunandi skattareglum, heldur með því að skapa heilbrigt rekstrarumhverfi. „Allir gleðjast yfir því þegar vel gengur í ferðaþjónustu. En ef Viðreisn vill vera sjálfri sér samkvæm berst hún gegn sérhagsmunum allra, líka vina sinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert