Vildi stjórna hvernig hún hagaði lífi sínu

Manninum er bannað að koma í nálægð við konuna eða …
Manninum er bannað að koma í nálægð við konuna eða heimili hennar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóm um að karlmaður skyldi sæta nálgunarbanni og verði bannað að koma að heimili barnsmóður sinnar eða nálgast hana og vera í innan við 50 metra fjarlægð frá henni. Samkvæmt gögnum lögreglunnar hafði konan ítrekað kvartað undan símaónæði af hálfu mannsins og þá hafði hann átt í hótunum við hana, meðal annars hótað henni lífláti.

Fyrst var tilkynnt um símaónæði fyrir um ári síðan, en þá lofaði maðurinn að hætta því. Í byrjun þessa árs leitaði konan aftur til lögreglu vegna langvarandi ónæðis, auk ofbeldis og hótana. Hafði maðurinn meðal annars sent 240 textaskilaboð til konunnar á fimm daga tímabili. Síðar hringdi hann 271 sinni í konuna og sendi hann henni 40 skilaboð á 8 daga tímabili úr tveimur mismunandi símum.

Kemur fram í lögregluskýrslu frá þessu tímabili að maðurinn hafi frá því að þau slitu samvistum leitast við að stjórna hvernig hún hagaði lífi sínu og hverja hún mætti hitta. Maðurinn sagði á móti við skýrslutöku að hann hefði ekki átt í neinum hótunum, en að hann væri ósáttur við þann félagsskap sem hún sækti í og hann hafi reynt að gæta hennar og „passa upp á“ hana og dóttur sína. Þá segist hann mögulega hafa gert mistök, en að konan hafi lagt í vana sinn að „pirra“ hann.

Þegar nálgunarbannið var sett á taldi lögreglustjóri hins vegar að maðurinn hafi raskað friðhelgi konunnar og staðfesti bæði héraðsdómur og Hæstiréttur það. Nær úrskurðurinn til næstu sex mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert