Dagskráin svo gott sem niðurnegld

Hið umdeilda áfengisfrumvarp verður ekki afgreitt á þessu þingi. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, og Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segja ágæta sátt um hvaða mál verða kláruð fyrir þinglok.

„Forseti leggur mjög mikið upp úr því að ljúka samkvæmt starfsáætlun og þar með erum við orðin mjög aðþrengd með tíma varðandi mál sem eru í ágreiningi, því þá fer bara tími í að ræða þau og þar með er starfsáætlunin farin,“ segir Svandís um stöðuna.

„Þannig að það gefur í raun augaleið að innan dagskrárinnar eru þá nánast bara þau mál sem eru í sæmilegri sátt, fyrir utan þá þessa ríkisfjármálaáætlun.“

Umrædd fjármálaáætlun 2018-2022 er fyrsta málið á dagskrá þingfundarins sem hófst kl. 10 í morgun en alls eru 38 mál á dagskrá þingsins, þeirra á meðal nokkru þingmannafrumvörp.

Svandís segist eiga von á umræðum um tvö önnur mál sem ágreiningur er um; frumvarp um vexti og verðtryggingu og frumvarp um skatta, tolla og gjöld. Annars sé ekkert sett á dagskrá sem menn telja sig ekki geta klárað.

Það verða þá sumsé engin mál sem ekki eru á dagskrá í dag á dagskrá á morgun?

„Nei,“ svarar Svandís. „Það myndi þá í raun sprengja upp forsendur þingloka.“

Birgir Ármannsson segir gengið út frá því að þeim málum sem eru á dagskrá í dag verði lokið og markmiðið sé að klára annað kvöld. Hann tekur þó ekki jafn djúpt í árina og Svandís varðandi það hvort dagskráin sé „læst“.

„Það kunna að bætast við mál sem eru þá einhvers konar samkomulagsmál úr nefndum en þau eru ekki mörg,“ segir Birgir. Hann útilokar hins vegar að umdeild mál muni „poppa upp“ á síðustu stundu.

Birgir segir óhætt að fullyrða að hvorki áfengisfrumvarpið né tálmunarfrumvarpið svokallaða klárist á þessu þingi. Þá segir hann ljóst að frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum er varðar fjölda fulltrúa í sveitarstjórn muni ekki ná fram að ganga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert