Segir gæslu og búnað hafa verið í lagi

Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði.
Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði. Ljósmynd/Hafnarfjordur.is

Forstöðumaður Suðurbæjarlaugar í Hafnarfirði, þar sem ungum dreng var bjargað frá drukknun á sunnudag, segir að ekki hafi skort á gæslu þegar atvikið átti sér stað. Þá sé myndavélabúnaður laugarinnar í góðu standi. Eins og mbl.is hefur fjallað um var það sundlaugargestur á næstu braut sem kom auga á drenginn á botni djúpu laugarinnar og dró hann upp á bakka.

„Við vorum að endurnýja myndavélakerfið nýlega svo það er ekkert að búnaði,“ segir hann en bætir við að birtuskilyrði geti þó verið mismunandi. „Ein af vélunum sem dekkar þetta svæði var ekki alveg fullkomin þar sem birtan var þannig. En það er aldrei hægt að stýra því. Myndavélarnar krossa laugina og það er enginn vanbúnaður þar á.“

Stökk kútalaus af ráspalli

Aðalsteinn segir að eðlilegt sé að sundlaugargesturinn hafi rekið augu í drenginn áður en starfsfólk sundlaugarinnar hafi gert það. Litið hafi út eins og drengurinn hafi verið að leika sér.

„Hann er að hoppa af ráspalli í laugina og eftir það nær hann ekki í bakka. Hann djöflast um eins og hann sé að leika sér, en er ekki syndur né með kúta. Svo sígur hann niður til botns, en það nær ekki hálfri mínútu þar til það er búið að koma honum upp á bakka,“ segir Aðalsteinn.

„Þetta er svo fljótt að gerast. Ef starfsmaður hefði tekið eftir þessu um leið hefði hann verið jafn fljótur og sundlaugargesturinn að barninu,“ bætir hann við.

Fylgst sé með ósyndum börnum

Drengurinn missti meðvitund en ekki þurfti að beita hjartahnoði. Vatni sem fór í lungu hans náði hann að hósta upp eftir að honum hafði verið komið upp á bakka. Drengurinn er við góða heilsu í dag. „Þetta fór allt saman vel. Það er aðalmálið,“ segir Aðalsteinn og bætir við að skjót viðbrögð viðstaddra hafi þar skipt höfuðmáli.

Loks vill hann ítreka mikilvægi þess að fylgst sé vel með ósyndum börnum, og þau séu með kúta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert