Telur Costco leggja 15 kr. á lítrann

Eldsneytisstöð Costco í Garðabæ.
Eldsneytisstöð Costco í Garðabæ. mbl.is/Ófeigur

„Ég ætla ekki að gera lítið úr því að hugsanlega er inni í þessu einhvers konar dreifingargjald, en það er ljóst að verðið er ekki laust við álagningu.“ Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í samtali við mbl.is um verð eldsneytis hjá bandarísku verslanakeðjunni Costco hér á landi.

Meðalálagning íslensku olíufélaganna hefur að hans sögn verið í kringum fjörutíu krónur á hvern lítra undanfarin ár, en þar sem verðið er lægst er hún talin vera um 27 krónur. Í kjölfar innreiðar Costco, þar sem eldsneytisverðið er töluvert lægra, hafa einhverjir velt því fyrir sér hver álagning fyrirtækisins sé og jafnvel hvort hún sé nokkur.

Sjá má í grafinu hér fyrir neðan grófa áætlun FÍB á því hvaða tölur liggja að baki eldsneytisverði hjá þeim tveimur félögum sem lægst hafa verðið. Tekið skal fram að inni í áætlaðri álagningu er einnig annar kostnaður sem ekki er hönd á festandi, svo sem kostnaður við flutning eldsneytisins frá Örfirisey og að bensínstöðvum.

Gróf áætlun FÍB á álagningu tveggja verðlægstu olíufélaganna, miðað við …
Gróf áætlun FÍB á álagningu tveggja verðlægstu olíufélaganna, miðað við verð dagsins í dag. Graf/mbl.is

 Svipað viðskiptamódel og í nágrannalöndunum

„Miðað við forsendurnar á heimsmarkaði í dag þá erum við að sjá að álagningin hjá Costco gæti verið í kringum fimmtán krónurnar, gróft áætlað. Í öllu falli erum við að sjá viðskiptamódel sem er ekki ósvipað því sem er í nágrannalöndunum. En það er álagning á þessu, það er alveg ljóst.“

Aðspurður segist Runólfur telja að koma Costco muni hafa áhrif á eldsneytismarkaðinn hér á landi, þrátt fyrir að búa einungis yfir þessari einu bensínstöð í Garðabæ.

„Auðvitað finna öll félögin fyrir þessu. Nú er þetta stærsta bensínstöðin á landinu, miðað við fjöldann af dælum sem þarna eru, og ef neytendur byrja að venja ferðir sínar þangað þá getur hún verið ansi drjúg og tekið jafnvel fimm, sex prósent af markaðshlutdeildinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert