Túnið fær aldrei hvíld fyrir túristum

Svæðið þolir ekki lengur átroðning ferðamanna.
Svæðið þolir ekki lengur átroðning ferðamanna. Mynd/Hákon Ásgeirsson

„Það eru flestallir sem virða svona lokanir og fylgja þeirri stýringu sem við setjum upp á svæðinu, en það eru alltaf einhverjir svartir sauðir,“ segir Hákon Ásgeirsson, landvörður hjá Umhverfisstofnun.

Á laugardag voru settar upp girðingar við Skógafoss til að sporna við átroðningi ferðafólks á grasflötinni fyrir framan fossinn. Hákon segir langflesta sýna þessu skilning, enda vel hægt að njóta svæðisins við fossinn án þess að fara inn á grasflötina.

„Þegar það er komið svona margt fólk á svæðið þá þolir grasið ekki lengur að það sé gengið á því. Þetta hefur verið í lagi hingað til, en nú er orðinn það mikill straumur af fólki allt árið um kring þannig að túnið fær enga hvíld, ekki einu sinni yfir vetrartímann líkt og áður var,“ útskýrir Hákon, en þetta er í fyrsta skipti sem girt er á þessum stað. Svæðið verður afgirt um óákveðinn tíma á meðan grasið er að ná sér aftur á strik.

Girðing var sett upp við Skógafoss síðastliðinn laugardag.
Girðing var sett upp við Skógafoss síðastliðinn laugardag. Umhverfisstofnun

„Það er búið að gera nýjan göngustíg meðfram hlíðinni og svo er fólki beint niður á áreyrarnar sem hægt er að fylgja alveg inn að fossi. Við erum líka að girða af alla hlíðina og lokum öllum afleiðustígum.“ Vonast er til að með þessum aðgerðum verði hægt að endurheimta gróðurþekju innan girðingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert