Alltaf barátta um hver fær mesta plássið

Góðir vinir Kiriyama Family að loknum tónleikum á Secret Solstice …
Góðir vinir Kiriyama Family að loknum tónleikum á Secret Solstice um síðustu helgi. F.v.: Guðmundur, Hulda, Víðir, Bjarni, Kalli, Bassi og Ásgeir Óskarsson Stuðmaður sem leikur á slagverk með þeim á tónleikunum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þau skreppa ekki lengur í klukkutíma í frissbí á hljómsveitaræfingum, enda þarf að nýta tímann vel þegar fólk hefur eignast börn og er í fullri vinnu. Hljómsveitin Kiriyama Family er komin með bandarískan umboðsmann og heldur útgáfutónleika á morgun, föstudag, til að fagna nýju plötunni, Waiting For. Hljómsveitarmeðlimir eru frá Stokkseyri, Eyrarbakka, Selfossi og sveitabæjum þar í nágrenni. Blaðamaður tók hús á þremur af sex meðlimum; þeim Kalla, Huldu og Víði.

„Mannabreytingar eru helsta ástæðan fyrir þessum langa tíma sem liðinn er frá því að við gáfum fyrstu plötuna okkar út, en hún kom út fyrir fimm árum. Einn meðlimur yfirgaf bandið en Hulda og Bjarni komu inn í staðinn. Dýnamíkin í bandinu breytist við innkomu nýs fólks og það er gott. Þegar kvenrödd Huldu bættist við jók það heldur betur möguleikana. Við vorum komin langt á leið með fullt af lögum, svo að við þurftum bæði að klára þau og gera ný lög.

Við erum búin af fara allan hringinn, mörg lög hafa farið út af plötunni en sum komu inn aftur. Við erum rosalega sátt við útkomuna,“ segja þau Kalli, Víðir og Hulda, þrjú af þeim sex sem skipa hljómsveitina Kiriyama Family, um nýútkomna plötu sína Waiting For....

Þau segja ástæður fyrir töfum líka vera þær að sumir hljómsveitarmeðlimir hafi verið uppteknir við að eignast börn og sinna öðru sem tekur tíma.

„Við vorum ekki með fyrirframhugmynd um ákveðinn fastan ramma um hvernig þessi plata ætti að vera, heldur gerðist þetta í ferlinu. Bassi er sá sem tekur upp og mixar og hann hafði einhvers konar úrslitavald um hvað fór á plötuna og hvað ekki, en hann virðir skoðanir okkar og tekur út það sem okkur finnst ómögulegt. Ég held að næsta plata verði meira eins og Kiriyama er núna, þar verði lög frá okkur öllum. Nýja platan er meira bland úr fortíðinni og nútíðinni,“ segir Víðir og bætir við að stefnan sé að láta aðdáendur ekki bíða lengi eftir næstu plötu.

Aðdáandi númer eitt var heldur betur til í að syngja með

Kiriyama Family var einvörðungu skipuð karlkyns meðlimum þar til fyrir fjórum árum þegar söngkonan Hulda gekk til liðs við hana. Kalli segir að hann hafi alltaf langað til að hafa kvenrödd í hljómsveitinni, til að hafa meiri fjölbreytni í hugmyndum og lagasmíðum. „Mér finnst fallegt að hafa bæði kven- og karlrödd, það vinnur vel saman upp á hljóðheiminn að gera. Við Hulda náðum strax mjög vel saman og það eru góðir straumar á milli okkar í söngnum.“

Hulda segir að hljómsveitin hennar, Aragrúi, hafi verið að æfa í Pakkhúsinu á Selfossi fyrir fjórum árum þar sem Bassi heyrði í henni syngja.

„Ég vann þetta sama ár söngvaraverðlaun og Bassi hringdi í mig og spurði hvort ég vildi syngja með þeim. Ég var meira en til í það, þar sem ég er aðdáandi hljómsveitarinnar númer eitt. Ég kom fyrst fram með þeim á Airwaves árið 2013 og hef sungið með þeim síðan,“ segir Hulda, sem er nokkuð yngri en strákarnir, en hún segir það ekki hafa verið neitt mál að skapa sér pláss meðal piltanna.

„Ég hef fengið heilmikið frelsi og rými. Ég á bæði texta og laglínur á nýju plötunni.“

Kalli bætir við að á vissan hátt sé alltaf bardagi á milli hljómsveitarmeðlima um hver fái mesta plássið.

„Enda gerum við mikið af því að skiptast á að spila á hljóðfærin.“

Þeim var blótað fyrir að vera með of mikinn hávaða

Hljómsveitarmeðlimir eru allir frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi, en Kalli er frá bænum Holti, rétt utan við Stokkseyri. Kalli og Víðir eru þeir sem lengst hafa starfað saman í bandinu, frá 2008. Þeir segja Kiriyama í raun spretta úr annarri hljómsveit, NilFisk, sem Víðir stofnaði ásamt fleirum þegar hann var í grunnskóla á Eyrarbakka, en NilFisk varð á sínum tíma þekkt sem hljómsveitin sem hitaði upp fyrir Foo Fighters í Laugardalshöllinni árið 2003 eftir að Dave Grohl heyrði í henni á æfingu á Stokkseyri og tók lagið með henni þar. Kalli gekk til liðs við NilFisk skömmu áður en hún varð Kiriyama Family. Þeir segja að það hafi verið þó nokkuð basl að halda gangandi hljómsveit í sveitinni á unglingsárunum.

„Við fengum vissulega mikinn stuðning úr ýmsum áttum en það var líka blásið á móti, margir blótuðu okkur fyrir að vera með hávaða og fannst við vera með of sítt hár og vera of miklir rokkarar,“ segir Víðir. „Við fundum líka alveg fyrir því að það var erfitt fyrir okkur sveitastrákana að komast að í bænum, við vorum ekki með sama tengslanet og hinir sem þekktu alla og voru heimamenn í Reykjavík.

Erlendur umboðsmaður fullur af eldmóði

Bjart er fram undan hjá Kiriyama Family, hljómsveitin er komin með bandarískan umboðsmann, Jeff Rude.

„Hann hafði keypt fyrri plötuna okkar á sínum tíma og líka fyrstu smáskífurnar af þessari nýju og var svona líka hrifinn. Hann hafði samband við okkur í gegnum Facebook og vildi koma okkur á framfæri og við slógum til, enda maðurinn fullur af eldmóði og heldur okkur við efnið. Hann hefur komið tvisvar til Íslands til að vera með okkur í því sem við erum að gera. Hann var með okkur á Secret Solstice um síðustu helgi þar sem við komum fram. Hann er að vinna í að bóka okkur á nokkur gigg úti svo við getum farið í tónleikatúr og plantað fræjum. Hjólin eru því farin að snúast og spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu. Ég ætla að leggja eins mikinn metnað og ég get í það sem mér finnst skemmtilegast að gera, búa til tónlist og spila fyrir fólk,“ segir Kalli, en þau sinna öll hljómsveitinni sem áhugamáli, eru í fullu starfi þar fyrir utan.

„Við reynum að nýta tímann vel þegar við hittumst á æfingum, en þegar við vorum yngri höfðum við miklu meiri tíma og leyfðum okkur að slóra, skruppum kannski út í frisbí í klukkutíma meðan á hljómsveitaræfingu stóð,“ segir Víðir og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert