Allt á floti á Eskifirði

Ljósmynd/Visit Eskifjörður

„Það er alveg gríðarlega mikil rigning og vatnsveður og það hefur bara hlaupið í ána,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is. Verktakar á Eskifirði vinna nú hörðum höndum að því að bjarga nýlega byggðri brú sem liggur yfir Hlíðarendaá sem rennur í gegnum bæinn. Vegna mikils vætuveðurs og rigninga hafa verið miklir vatnavextir í ánni sem nú flæðir yfir bakka sína.

„Aðgerðir hér standa yfir til þess að reyna að veita vatninu í sjóinn, það er svo ofsalegur framburður af aur og kolmórauðu vatni og mikill sandur sem fylgir þessu,“ segir Páll. „Það er allt gert til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður.“

Ljósmynd/Visit Eskifjörður

Nýlega var lokið við að byggja brúna sem nú liggur undir skemmdum vegna vatnavaxtanna að sögn Páls Björgvins. Hann vonar að fleiri verðmæti liggi ekki undir skemmdum en aðgerðir standa yfir. „Það var nú bara heppni að það voru verktakar hérna á svæðinu þannig að það eru stórtækar vinnuvélar hér að reyna að bjarga því sem bjargað verður,“ segir Páll. „Ég hef ekki séð að það séu nein hús eða slíkt í hættu, ekki eins og er alla veganna.“

Kristinn Þór Jónasson hefur birt myndbönd af vatnavöxtunum á Facebook-síðu sinni sem sjá má hér að neðan.



Ljósmynd/Visit Eskifjörður
Ljósmynd/Visit Eskifjörður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert