„Þungt áfall fyrir litla þjóð“

Þorpið Nuugaatsiaq er rústir einar.
Þorpið Nuugaatsiaq er rústir einar. Ljósmynd/Hrókurinn

Landssöfnun vegna hamfaranna í Grænlandi fer vel af stað og hefur Reykjavíkurborg samþykkt að leggja til 4 milljónir króna. Hrafn Jökulsson, talsmaður söfnunarinnar, segir viðbrögð Íslendinga skipta sköpum fyrir Grænlendinga.  

12 milljónir á þremur dögum

Hrafn segir í samtali við mbl.is söfnunina hafa farið gríðarlega vel af stað. „Undirtektir Íslendinga eru frábærar. Viðbrögð fólks sýna að Íslendingar vilja á erfiðri stundu senda Grænlendingum skýr skilaboð um vináttu í verki,“ segir Hrafn. Nýjustu tölur gefa til kynna að söfnunin stendur í 12 milljónum króna eftir aðeins þrjá daga. 

„Ég hvet alla landa mína til þess að taka þátt í söfnuninni ef þeir mögulega geta, ég hvet líka fyrirtækin í landinu til þess að koma með hraustleg framlög í því góðæri sem nú ríkir. Ég skora líka á sveitarfélögin okkar að koma með myndarleg framlög sem notuð verða til þess að búa fólkinu sem missti allt nýtt líf,“ segir Hrafn.   

Reykjavíkurborg gefur 4 milljónir

„Við erum óskaplega þakklátt öllum þeim einstaklingum, félögum, klúbbum og fyrirtækjum sem þegar hafa gengið til liðs við þessa landssöfnun um þjóðargjöf til Grænlendinga, en við erum rétt að byrja og ætlum að halda áfram af fullum krafti,“ segir Hrafn.

Það sem safnast hefur er að langmestu leyti frá einstaklingum en Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi í gær að veita söfnuninni 4 milljón króna styrk. Þá lagði Air Iceland Connect til 1 milljón króna og Styrktarsjóður Kiwanis 500.000 krónur.

Viðbrögð Íslendinga skipta máli

„Ástandið á Grænlandi er grafalvarlegt. Þrjú þorp standa nú auð og eitt af þeim er nánast rústir einar. Fjórir fórust, fjöldinn allur er heimilislaus og þetta er þungt áfall fyrir litla þjóð,“ segir Hrafn.

Hrafn bendir á að Íslendingum beri á þessari stundu að standa með vinum okkar, rétt eins og Grænlendingar gerðu þegar snjóflóðið ógurlega féll á Flateyri 1995. Þá efndu Grænlendingar til landssöfnunar þar sem margir gáfu af litlum efnum, segir Hrafn.

„Ég hef fundið síðustu daga á vinum mínum á Grænlandi hve viðbrögð Íslendinga og Færeyinga hafa verið þýðingarmikil,“ segir Hrafn og bætir við að þakklætið og kærleikurinn beinlínis streymi frá Grænlandi til Íslands. Grænlenski fréttamiðlar fylgjast með söfnuninni af miklum áhuga og hefur Sermitsiaq fjallað um landssöfnunina.  

Hver einasta króna fer til Grænlands

Hrafn vill koma á framfæri þakklæti í garð Hjálparstarfs kirkjunnar vegna skjótra viðbragða þegar grænlandsvinir leituðu til þeirra vegna landssöfnunar. „Hver einasta króna sem inn kemur mun skila sér til Grænlands, því kostnaður við söfnunina verður enginn,“ segir Hrafn. En óvanalegt er að svo stórar safnanir beri engan kostnað.

Að lokum biðlar Hrafn til fólks að breiða út þetta fagnaðarerindi vináttunnar og kynna söfnunina á Facebookarsíðum og öðrum samfélagsmiðlum og hvetja alla til þess að vera með.

Hægt er að leggja söfn­un­inni lið með því að leggja inn á söfn­un­ar­reikn­ing 0334-26-056200, kennitala 450670-0499 eða hringja í síma 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krón­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert