Tjón á nokkrum húsum

Frá vatnavöxtunum á Seyðisfirði.
Frá vatnavöxtunum á Seyðisfirði. Ljósmynd/Viðlagatryggingar Íslands

„Við höfum ekki fengið upplýsingar um tjón annars staðar en á Seyðisfirði og Eskifirði en það eru sjálfsagt vatnavextir víðar,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, í samtali við mbl.is en hún er stödd á Austfjörðum þar sem vatnavextir hafa orðið í ám og lækjum vegna mikillar úrkomu að undanförnu.

Fulltrúar Viðlagatryggingar Íslands eru nú á leið til Eskifjarðar til þess að kynna sér stöðuna þar eftir að hafa verið á Seyðisfirði. „Þetta er dálítið mikið flóð á Seyðisfirði en enn sem komið er er þetta ekki stórkostlegt tjón. Þetta er tjón á nokkrum húsum. Fyrst og fremst hefur verið að flæða inn í kjallara sem ekki er búið í heldur nýttir sem geymslur.“

Verst sé tjónið líklega í einu húsi þar sem flætt hafi inn á baðherbergi og þvottahús. „En í rauninni munum við ekki vita hversu mikið tjón hefur orðið fyrr en flóðið er afstaðið. Fyrsta verkefnið hjá okkur er að athuga hvort um bótaskyldan atburð er að ræða hjá okkur. Þess vegna förum við á staðinn og okkur sýnist við fyrstu skoðun að svo sé allavega miðað við það sem við höfum séð af tjónum.“

Ræsi við Garðarsveg á Seyðisfirði.
Ræsi við Garðarsveg á Seyðisfirði. Ljósmynd/Viðlagatryggingar Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert