Útskrifast með 9,01 í meðaleinkunn

Alls brautskráðust níu nemendur úr mekatróník hátæknifræði og úr orku- …
Alls brautskráðust níu nemendur úr mekatróník hátæknifræði og úr orku- og umhverfistæknifræði í dag þegar brautskráning fór fram í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis. Ljósmynd/Keilir

Alls brautskráðust níu nemendur úr mekatróník hátæknifræði og úr orku- og umhverfistæknifræði í dag þegar brautskráning fór fram í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis. Þórir Sævar Kristinsson hlaut meðal annarra viðurkenningu fyrir lokaverkefni sitt en hann útskrifaðist jafnframt með hæstu meðaleinkunn, 9,01.

Námið heyrir undir rafmagns- og tölvuverkfræðideild HÍ en þetta er í sjötta sinn sem útskrifaðir eru nemendur í tæknifræði frá Keili til BSc-gráðu frá Háskóla Íslands en alls hafa nú 72 nemendur útskrifast úr náminu frá upphafi.

Sverrir Guðmundsson, deildarstjóri tæknifræðideildar, flutti ávarp við athöfnina og afhenti prófskírteini ásamt Helga Þorbergssyni, dósent við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Þá flutti Arnlaugur Guðmundsson, fulltrúi tæknifræðinga í stjórn Verkfræðingafélags Íslands, einnig ávarp og veitti gjafir fyrir vel unnin og áhugaverð verkefni. Ólöf Ögn Ólafsdóttir flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ræðu og stjórnaði athöfninni.

Ólafur Jóhannsson hlaut viðurkenningu fyrir lokaverkefni sitt í orku- og umhverfisfræði, en verkefni hans var hagkvæmnismat á uppsetningu umhverfisvænna orkugjafa fyrir rekstur gistihúsa.

Þá fékk Þórir Sævar Kristinsson líkt og fyrr segir viðurkenningu fyrir lokaverkefni sitt í mektaróník hátæknifræði. Í verkefninu var hönnuð og unnin hagkvæm lausn að jaðartæki við svokallaðan flutningsvaka, sem er sjálfvirkur búnaður sem skrásetur hvers konar meðhöndlun varningur í flutningi verður fyrir, auk þess að skrá hitastig, þrýsting og rakastig. Þórir hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan námsárangur, með 9,01 í meðaleinkunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert