Fann 3.000 ára gamla tönn í fjöru

Feðgarnir Guðmundur Arnar og Ásmundur með tönnina.
Feðgarnir Guðmundur Arnar og Ásmundur með tönnina. Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason

Athugull 6 ára drengur fann steingerða rostungstönn í fjörunni við Stykkishólm. Talið að tönnin sé um 3.000 ára gömul.

Þeir áttu ekki von á því feðgarnir Guðmundur Arnar og faðir hans Ásmundur að ferðin þeirra í þetta skiptið út í Landey við Stykkishólmi yrði eftirminnileg. En annað kom á daginn. Guðmundur Arnar, sem er 6 ára gamall, var að skoða steinana í fjörunni og vakti þá athygli hans skrítinn steinn sem grafinn var að mestu í sandinn.

Við nánari athugun feðganna kom í ljós að þetta var ekki venjulegur steinn heldur reyndist þetta vera steingerð rostungstönn. Þeir létu Náttúruminjasafn Íslands vita og kom Hilmar Malmquist vestur til að skoða gripinn. Hann staðfesti að miðað við hversu vel steingerð tönnin er, væri líklegt að hún gæti verið um 3.000 ára gömul.

Ætlunin er að taka sýni með því að bora í tönnina og ná í lífrænan vef til að aldursgreina og gera erfðarannsóknir.

Hilmar segir í umfjöllun um  málið í Morgunblaðinu í dag að rostungar flækist hingað stöku sinnum, en þeir hafi verið algengari hér fyrr á öldum. Að hans sögn er rostungstönnin tvímælalaust merkur fundur og er ein viðbótin til að túlka náttúrusögu landsins langt aftur í tímann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert