Dúxaði með hæstu einkunn á meistaraprófi

Hildur útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,48.
Hildur útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,48. ljósmynd/Úr einkasafni

„Tilfinningin er mjög góð,“ segir Hildur Hjörvar, sem í dag útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands með hæstu meðaleinkunn á mag. jur. prófi í sögu deildarinnar eða 9,48.

Frá árinu 2007 hafa nemendur sem brautskrást með meistarapróf í lögfræði frá skólanum hlotið próftitilinn magister juris (mag. jur.) en fyrir það útskrifuðust lögfræðingar með embættispróf (cand. jur.) eftir fimm ára nám við deildina. Er einkunn Hildar því sú hæsta í að minnsta kosti tíu ár, ef ekki lengur.

Fékk 9,5 fyrir meistararitgerðina

Hildur segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart að dúxa með svo háa einkunn, en er vitanlega afar ánægð með árangurinn. Segir hún einkunn fyrir meistararitgerð sína hafa haft mikið að segja, en hún fékk 9,5 fyrir hana.

Frá verðlaunaafhendingunni í gær. Óttar Pálsson hrl. afhenti verðlaun fyrir …
Frá verðlaunaafhendingunni í gær. Óttar Pálsson hrl. afhenti verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn á mastersprófi fyrir hönd LOGOS lögmannsþjónustu. ljósmynd/Úr einkasafni

Ritgerðin fjallaði um ábyrgð ríkja á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu á hlerunum og öðrum inngripum í friðhelgi einkalífs þeirra sem staddir eru utan yfirráðasvæðis þess ríkis sem beitir hlerununum. Ritgerðina skrifaði hún undir leiðsögn Róberts Spanó, prófessors og dómara við Mannréttindadómstól Evrópu

Skoðaði hleranir ríkja utan landsvæðis þeirra

„Þetta er mjög mikið í deiglunni núna og ein helsta vá sem steðjar að vernd friðhelgi einkalífs er að ríki geti hugsanlega hlerað einstaklinga utan landsvæðis síns,“ útskýrir Hildur og bendir á að þróunin veki spurningar um það hvort ríki beri ábyrgð á slíkum inngripum á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu.

Niðurstaða hennar var sú að inngrip í friðhelgi einkalífs virki ekki ein og sér skyldur ríkja samkvæmt Mannréttindasáttmálanum án þess að annað og meira komi til. Ýmsir þættir sem tengi slíkar hleranir með áþreifanlegum hætti við yfirráðasvæði ríkjanna geti aftur á móti virkjað slíkar skyldur.

Frá opinberri vörn meistararitgerðar Hildar. Henni við hlið er Ásgerður …
Frá opinberri vörn meistararitgerðar Hildar. Henni við hlið er Ásgerður Ragnarsdóttir hrl., sem var prófdómari. ljósmynd/Úr einkasafni

Var samferða móður sinni í náminu

Þegar blaðamaður mbl.is nær tali af Hildi er hún að undirbúa útskriftarveislu, en hana heldur hún sameiginlega með móður sinni sem einnig var að útskrifast í dag. „Ég var svo heppin að hafa verið samferða henni,“ segir Hildur, en móðir hennar, Þórhildur Elín Elínardóttir, útskrifaðist með MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu í dag.

„Við skrifuðum meistararitgerðirnar okkar á sama tíma sem var hentugt því þá gátum við kvartað hvor í annarri,“ segir Hildur og hlær, en líkt og flestir sem hafa skrifað lokaritgerðir vita líklega getur því fylgt mikill tilfinningarússíbani. „Eina stundina finnst manni það sem maður er að skrifa geggjað en þá næstu ömurlegt,“ segir Hildur, sem uppskar þó rækilega laun erfiðisins.

Hildur og móðir hennar sem einnig útskrifaðist í dag.
Hildur og móðir hennar sem einnig útskrifaðist í dag. ljósmynd/Úr einkasafni

Fjórar málflutningskeppnir að baki í deildinni

Hildur er ánægð með árin fimm sem hún á að baki við lagadeild Háskóla Íslands og segir deildina hafa gefið sér frábær tækifæri til að læra og þroska sína hæfileika. Þá hafi jafnframt verið gefandi að fá tækifæri til að fara í skiptinám til Hollands þar sem hún hafi fengið nýjar áskoranir í nýju umhverfi.

Hún var virk í deildinni öll árin sín og tók til að mynda þátt í fjórum málflutningskeppnum fyrir hönd deildarinnar. Nú síðast tók hún þátt í Norrænu málflutningskeppninni sem fram fór í Landsdómi Svíþjóðar í Stokkhólmi fyrr í þessum mánuði. Keppnin er á sviði Mannréttindasáttmála Evrópu og fer fram á dönsku, norsku og sænsku.

Hildur í pontu í Norrænu málflutningskeppninni, sem fór fram í …
Hildur í pontu í Norrænu málflutningskeppninni, sem fór fram í Landsdómi Svíþjóðar í Stokkhólmi fyrr í þessum mánuði. ljósmynd/Úr einkasafni

„Þetta var frekar hektísk önn“

„Þetta var frekar hektísk önn,“ viðurkennir Hildur, en segir reynsluna ómetanlega. „Það er ofboðslega lærdómsríkt að taka þátt í svona málflutningskeppnum og þurfa að setja sig inn í mál, gjörþekkja allar hliðar þess og sjá hvernig hægt er að færa sterk rök fyrir báðum pólum.“

Áður hafði Hildur tekið þátt í málflutningskeppni Philip C. Jessup í Washington D.C. 2016, sem er stærsta málflutningskeppni á sviði þjóðaréttar í heimi og EES-málflutningskeppninni í nóvember síðastliðnum, þar sem hún var valin besti málflytjandinn.

Hildur hlaut viðurkenningu sem besti málflytjandi á EES-málflutningskeppninni í nóvember …
Hildur hlaut viðurkenningu sem besti málflytjandi á EES-málflutningskeppninni í nóvember síðastliðnum. Lið hennar bar einnig sigur úr býtum í keppninni, en það var ásamt henni skipað þeim Andrési Fjeldsted, Arnari Vilhjálmi Arnarssyni, Jönu Horáková og Stefáni Kristinssyni. ljósmynd/Úr einkasafni

Gefandi að læra með öðrum

Loks segir Hildur lykilinn að góðum árangri vera að læra með öðrum. „Ég var í góðum leshóp sem hittist, ræddi og jafnvel hnakkreifst um efnið og svör við spurningum úr gömlum prófum og það fannst mér gefa mér mjög mikið,“ segir hún.

En hvað tekur við næst? „Ég er byrjuð sem fulltrúi hjá LOGOS lögmannsþjónustu, sem er stærsta og elsta lögmannsþjónusta á landinu,“ segir Hildur, en hún hefur starfað hjá stofunni sem laganemi frá árinu 2014. „Það er ofboðslega gefandi og lærdómsríkt að fá að starfa með reynslumiklum lögmönnum eins og þeim sem þar starfa,“ bætir hún við að lokum.

Hildur á fyrstu viðureign íslenska liðsins í málflutningskeppni Philip C. …
Hildur á fyrstu viðureign íslenska liðsins í málflutningskeppni Philip C. Jessup í Washington D.C. 2016, sem er stærsta málflutningskeppni á sviði þjóðaréttar í heimi. Efni keppninnar það ár var að hluta til byggt á Snowden-lekanum og varð keppnin kveikjan að efni meistararitgerðarinnar hennar. Liðið skipaði Hildur, Stefán Kristinsson, Aron Freyr Jóhannsson og Ragnheiður Kristín Finnbogadóttir. Á myndinni eru dómarar viðureignarinnar og argentínska liðið, sem stóð uppi sem sigurvegarar Jessup 2016. Hildur var á lista yfir 100 bestu málflytjendur keppninnar. ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert