Ramadan og björtu sumarnæturnar

Sergine Modou Fall kann vel við sig í íslenska sumrinu …
Sergine Modou Fall kann vel við sig í íslenska sumrinu og segir Íslendinga taka honum eins og hann er. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Serigne Modou Fall ætlar að fagna lokum föstumánaðarins Ramadan með vinafjölskyldu sinni á Íslandi á morgun með mikilli matarveislu, en hann býr hér á landi þar sem hann æfir fótbolta með ÍR. Hann hefur aldrei mætt fordómum á Íslandi vegna trúar sinnar, hvorki þegar hann bjó á Ísafirði né í Reykjavík. Hann segir Íslendinga einstaklega vinsamlega og unir hag sínum vel.

„Á Íslandi er ómögulegt fyrir okkur sem erum múslimatrúar að fylgja sólarlagsreglu föstumánaðarins Ramadan, þá gætum við ekkert borðað allan sólarhringinn. Allan mánuðinn sem Ramadan stendur yfir fasta þeir sem eru múslimatrúar frá því sólin rís að morgni þar til hún sest að kveldi. Þeir borða því að kveldi eftir sólarlag. En múslimar hér á landi fá að laga sólargangsreglu föstunnar að þeim sérstöku aðstæðum að hér rís sólin á þessum árstíma upp rétt eftir að hún hefur sest,“ segir Serigne Modou Fall sem þekkir þetta af eigin raun, verandi múslimi og hafa búið á Íslandi undanfarin tæp tvö ár.

Finnst ekki erfitt að fasta

Hann segir ekkert mál að fasta yfir daginn í heilan mánuð.

„Ég er ungur og heilsuhraustur en þeir sem eru veikir þurfa ekki að fasta, og sama er að segja um þá sem eru á ferðalögum þegar Ramadan stendur yfir, þeir geta frestað föstunni þar til ferðalagi lýkur.“

Með fjölskyldu sinni á Ísafirði F.v aftari röð: Elmar, Serigne, …
Með fjölskyldu sinni á Ísafirði F.v aftari röð: Elmar, Serigne, Sigurður Geir bróðir Elmars, Garðar faðirinn. F.v fremri röð: Birta systir Elmars, Anna Lind móðirin og tengdadóttirin Kristín, kærasta Sigurðar Geirs. Úr einkasafni

Serigne segir að Ramadan sé níundi mánuðurinn í íslamska dagatalinu. „Íslamska dagatalið tekur mið sitt af tunglinu og því er breytilegt frá hvaða degi til hvaða dags Ramadan-mánuðurinn stendur. Að fasta í mánuð er ein af fimm stoðum íslamstrúar, ætlað til að fólk efli aga sinn og trúfestu. Það væri erfitt að fasta ef einhver manneskja segði mér að gera það, en það er ekki erfitt þegar ég geri það til að efla mig í trúnni. Ég geri það fyrir mig, engan annan. Mér líður eins og ég sé frjáls í hjarta mínu meðan á föstunni stendur, auk þess er það gott fyrir heilsu mína, hreinsandi,“ segir Serigne og bætir við að einnig sé öllum múslimum skylt að gefa fátækum peninga meðan á föstumánuði stendur.

Vissi ekkert um Ísland

Serigne er 23 ára, fæddur og uppalinn í Senegal í Afríku, en hann fluttist til Ítalíu þegar hann var 12 ára, þar sem faðir hans býr, en móðir hans býr á Spáni.

„Ég spilaði fótbolta á Ítalíu í átta ár og eftir það fór ég til Spánar þar sem ég spilaði í eitt tímabil. Þaðan flutti ég svo til Noregs þar sem ég spilaði undir stjórn Teits Þórðarsonar. Teitur var mín fyrsta tenging við Ísland, því ég vissi ekkert um þetta land fram að því. Eftir eitt og hálft tímabil í Noregi sagði Teitur að kannski gæfust mér betri tækifæri í fótboltanum á Íslandi, og ég ákvað að slá til. Ég fór á reynslu hjá Víkingi, þar sem bróðir hans, Ólafur Þórðarson, var að þjálfa, en síðan flutti ég til Ísafjarðar þar sem ég lék með BÍ/Bolungarvík, sem varð að Vestra. Ég bjó á Ísafirði í tvö sumur og æfði þar fótbolta, en núna er ég fluttur til Reykjavíkur, því mér var boðinn samningur hjá ÍR og þar æfi ég fótbolta. Ég sé líka um knattspyrnuskóla ÍR.“

Marie dóttir Kristjönu og Daouda fagnar sigri hjá Serigne.
Marie dóttir Kristjönu og Daouda fagnar sigri hjá Serigne. Úr einkasafni

Kristjana hefur hjálpað mér

Serigne segir ekki hafa verið auðvelt að finna íbúð í höfuðborginni þegar hann flutti suður, en Daouda, vinur hans frá Senegal sem hefur búið á Íslandi í tuttugu ár og er giftur íslenskri konu, Kristjönu Margréti Þórisdóttur, leyfði honum að búa á heimili þeirra fyrstu þrjá mánuðina í Reykjavík.

„Kristjana er yndisleg og hefur hjálpað mér mjög mikið. Ég lít á þau sem mína nánustu fjölskylda á Íslandi og ég heimsæki þau oft. Ég mun fagna með þeim á morgun með matarveislu, því síðasti dagurinn í föstumánuði Ramadan er í dag. Bræður Daouda munu einnig koma til veislunnar og mér á eftir að líða eins og ég sé heima hjá mér, þá fæ ég ekki heimþrá. Þetta er stór hátíð hjá okkur múslimum, þegar Ramadan lýkur, hún heitir Eid al-Fitr.“

Fólk einblínir ekki á trú mína

Serigne er afar ánægður á Íslandi og segist hvarvetna mæta vinsemd.

„Vissulega var erfitt fyrir mig að flytja til Ísafjarðar í nóvember, þegar myrkrið er svartast og kuldinn mestur, en mér leið vel af því mér var vel tekið. Ég eignaðist góðan vin í Elmari Garðarssyni, einum þeirra sem æfðu fótbolta með mér. Ég lít á hann sem bróður minn og hann kynnti mig fyrir fjölskyldu sinni. Þau eru yndislegt fólk.“

Serigne í leik í vor þar sem ÍR mætti Gróttu, …
Serigne í leik í vor þar sem ÍR mætti Gróttu, lið hans ÍR sigraði 2:1. Að baki honum er Dagur Guðjónsson, liðsmaður Gróttu.

Þegar Serigne er spurður að því hvort hann hafi mætt fordómum hér á landi eða orðið fyrir aðkasti vegna þess að hann er múslimi, segir hann svo ekki vera.

„Aldrei. Hvorki á Ísafirði né í Reykjavík. Fólk tekur mér eins og ég er, það sér mig og minn persónuleika en er ekki að einblína á trú mína. Ég er mjög þakklátur fyrir það,“ segir Serigne sem er mikill tungumálamaður, hann talar ensku, ítölsku, spænsku og frönsku og nú er hann að læra íslensku.

Þegar hann er spurður að því hvert hann stefni í framtíðinni segir hann sitt helsta markmið að verða betri fótboltamaður og skapa sér orðstír á þeim vettvangi.

„Núna er ég að spila í fyrstu deildinni en ég vil gjarnan komast í úrvalsdeild. Framtíð mín er opin. Vissulega sakna ég fólksins míns, foreldra minna og systkina, en ég stefni á að fara í heimsókn til þeirra til Ítalíu og Spánar. Þau undrast mjög þetta land sem ég bý í hér í norðri, þar sem sólin gengur ekki til viðar,“ segir hann og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert