Tjónið talsvert meira á Seyðisfirði

Húsin tvö á Seyðisfirði sem aurskriðan féll á í morgun.
Húsin tvö á Seyðisfirði sem aurskriðan féll á í morgun. Ljósmynd/Viðlagatryggingar Íslands

Skemmdir eru umtalsvert meiri á Seyðisfirði en Eskifirði vegna mikilla vatnavaxta á Austfjörðum undanfarna daga. Mesta tjónið er vegna aurskriðu sem féll á Seyðisfirði í morgun en tvö hús skemmdust mikið við skriðuna.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatrygginga Íslands, segir nú verið að safna saman tilkynningum og er reiknað með að matsmenn fari Austur á þriðjudag. Hún segir eignatjónið ekki gríðarlegt. „Við erum ekki að telja þetta í hundruðum milljóna, kannski í einhverjum tugum,“ segir Hulda en setur þó þann fyrirvara á að tjónið verði ekki metið fyrr en atburðurinn er genginn yfir.

Hús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.
Hús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósmynd/Viðlagatryggingar Íslands

„Á Eskifirði er þetta fyrst og fremst framburður í ánni sem liggur í gegnum bæinn. Það er mesta tjónið fyrir sveitarfélagið, og það er ekki vátryggt tjón hjá okkur á meðan lagnirnar verða ekki fyrir verulegu tjóni,“ segir Hulda. Hún segir bæjarbúa hafa unnið þrekvirki með því að halda hlutunum þar í lagi.

„Það er ekki mikið tjón á mannvirkjum. Það flæddi inn í tvö hús sem ekki er búið í, vinnu- og sjóhús, en engin stórtjón á Eskifirði,“ segir Hulda. Einhverjar skemmdir hafa orðið á lögnum og stokkum sem liggja undir brúnni en hún segir tjónið ekki stórvægilegt.

Á Seyðisfirði hafa aftur á móti fleiri hús orðið fyrir tjóni. „Að mestu leyti hafði bara vatn flætt inn í kjallara húsanna þar til aurskriðan féll í morgun,“ segir Hulda en skriðan féll á hús í eigu Síldarvinnslunnar og hús sem búið er verið að gera upp undanfarið. Stígvélahá drulla er nú í kjallara þess síðarnefnda.

Frá Seyðisfirði. Á myndinni má sjá hvernig aurskriðan féll yfir …
Frá Seyðisfirði. Á myndinni má sjá hvernig aurskriðan féll yfir veginn. Ljósmynd/Viðlagatryggingar Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert