Dúxaði með 10 í meðaleinkunn

Árni Freyr Gunnarsson.
Árni Freyr Gunnarsson. Ljósmynd/Úr einkasafni

Árni Freyr Gunnarsson útskrifaðist í gær með BS-próf í stærðfræði frá Háskóla Íslands, en meðaleinkunn hans er 10. „Þú þarft bara að svara rétt og ég ákvað það bara snemma að ég ætlaði alltaf að svara rétt og það tókst,“ segir Árni.

 „Ég er með tvær 9,5 á ferlinum, ekki segja neinum,“ segir Árni kíminn og bætir við að meðaleinkunnin hafi þó náð upp í 10 með einum aukastaf. Árna er margt til lista lagt og hefur hann einnig lokið BA-prófi í tónsmíðum frá háskóla í Mílanó á Ítalíu.

Á tónlistarnáminu mikið að þakka

Eftir námið á Ítalíu lá leiðin heim til Íslands og hóf Árni nám í stærðfræði við HÍ. Hann segir það rökrétt framhald af tónsmíðanáminu, en hann skráði sig upphaflega í tölvunarfræði því hann notaði mikið tölvur við tónsmíð. Fljótlega áttaði hann sig þó á því að stærðfræði ætti betur við sig. „Ég skipti bara og hef verið í stærðfræði síðan og sé ekki eftir neinu,“ segir Árni.

Árni segir námsárangur sinn að miklu leyti tónlistarnáminu að þakka. Hann spilar á píanó og hefur stundað tónlistarnám samhliða námi í gegnum ævina. „Þegar þú ert að læra listgreinar er nauðsynlegt að hafa góð sjálfstæð vinnubrögð og mikinn sjálfsaga,“ segir Árni. Hann bætir svo við að langmestu máli skipti að hafa áhuga á því sem þú ert að gera.

Stefnir á framhaldsnám erlendis

Árni hefur nú þegar hafið störf hjá Íslenskri erfðagreiningu og vinnur þar að ýmsum verkefnum og rannsóknum. Aðspurður segir Árni sér líka mjög vel og í fyrirtækinu sé virkilega gott umhverfi og margt gríðarlega klárt fólk.

„Einn daginn ætla ég að reyna að komast í framhaldsnám, en það verður ekki alveg strax,“ segir Árni. Stefnan er sett á framhaldsnám erlendis en hann hefur ekki skoðað möguleikana af neinni alvöru enn þá.

Árni tekur frábærum námsárangri sínum af mikilli hógværð og vill koma því á framfæri að einkunnir segi ekki alla söguna. „Það eru margir þarna miklu klárari en ég sem eru kannski ekki með jafnháar einkunnir,“ segir Árni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert