„Eitthvað sem má ekki nefna“

Tímaritið Ónefna er frumraun þriggja ljósmyndara, þeirra Berglaugar Petru Garðarsdóttir, …
Tímaritið Ónefna er frumraun þriggja ljósmyndara, þeirra Berglaugar Petru Garðarsdóttir, Söru Bjarkar Þorsteinsdóttir og Gunnlaðar Jónu Rúnarsdóttir til blaðaútgáfu. Ljósmyndari/Birgir Már Sigurðsson

Tímaritið ÓNEFNA er frumraun þriggja ljósmyndara, þeirra Berglaugar Petru Garðarsdóttur, Söru Bjarkar Þorsteinsdóttur og Gunnlaðar Jónu Rúnarsdóttur, til blaðaútgáfu. Tímaritið er unnið í samstarfi við Skapandi sumarstörf í Kópavogi.

Berglaug segir tímaritið leggja áherslu á jákvæða líkamsímynd. „Okkur langaði að búa til tímarit sem fagnaði fegurð fjölbreytileikans,“ segir Berglaug.

Hún segir að tíðarandinn geti verið skaðlegur sjálfsmynd kvenna en hann sé þó að breytast. Nú sé í tísku á Íslandi að vera meðvitaður og að sýna konur frekar eins og þær séu. Þær sem útgefendur séu að taka þátt í þeirri bylgju. Þetta sé því ákall ungmenna um breyttan hugsunarhátt þegar kemur að umræðu tengdri líkamsímynd og útliti kvenna. „Okkur langaði að gera blað sem við hefðum viljað stelast í þegar við vorum unglingar. Þetta eru skilaboð sem við hefðum viljað fá á unglingsárunum,“ segir Berglaug.

Tímaritið er byggt að vissu leyti eins og hefðbundið tímarit, með tískuþáttum, förðunardálkum og öðru tengdu útliti. Það sem sé öðruvísi er að í stað þess að kenna konum hvernig eigi að vera „fallegar“ þá sé allri fegurð fagnað. „Þetta er tímaritið sem við erum vanar að sjá en með annarri nálgun. Það er ekki fókus á útlit heldur jákvæðni gagnvart útliti, líkamanum og fjölbreytileikanum,“ segir Berglaug. Viðfangsefni þeirra séu allar konur. „Okkur langar að nota eldri konur, stærri konur og minni konur. Allt sem okkur finnst við aldrei sjá en við sjáum samt í daglegu lífi, þegar þú labbar út í búð eða ferð í sund.“

Gunnlöð segist hafa viljað með þessari mynd „setja menn í …
Gunnlöð segist hafa viljað með þessari mynd „setja menn í aðeins öðruvísi samhengi en þeir birtast okkur venjulega í tímaritum“. Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Tímaritið verður fyrst og fremst myndrænt enda eru allir í hópnum ljósmyndarar. Það verður aðallega byggt á myndaþáttum eftir þær en verður einnig með verkum eftir aðrar listakonur og -menn. Að auki verða hugleiðingar og greinar tengdar öllu mögulegu í blaðinu, ýmist samið af þeim stöllum eða aðsent efni. Aðspurð segir Berglaug heiti tímaritsins spretta frá einu helsta viðfangsefni þess, kvenleika. Í leit að nafni hafi Berglaug því skoðað samheiti yfir kynfæri kvenna. „Þá kom upp orðið Ónefna. Okkur fannst þetta svo sterkt, eitthvað sem má ekki nefna.“ 

Ekki tískutímarit

Berglaug segir ástæðu þess að blaðið fjalli um tísku og útlit vera bakgrunn hópsins í ljósmyndun. „Vegna þess að við þrjár erum í ljósmyndun leggjum við áherslu á allt sem er sjónrænt og fagurfræði. Ég myndi samt aldrei kalla þetta tískutímarit.“ Einnig sé tímaritið tilraun til að gefa þeim, sem falli ekki í hefðbundinn flokk fegurðar, grundvöll til að njóta útlits síns.

Berglaug segir að það sem sé ungum konum skaðlegt séu óraunhæfar fyrirmyndir sem séu oft settar fram í samfélaginu. Auk þess sé konum sagt að það sé aðeins ein gerð af fegurð, sem allir eiga að sækjast eftir. „Það er alltaf verið að reyna að selja okkur eitthvað á þeim forsendum að við séum ekki réttar eða að við þurfum að laga okkur og breyta okkur,“ segir hún.

Það sé skaðlegt konum og körlum að bera sig stöðugt saman við eitthvað sem ekki sé raunverulegt og að setja sér markmið sem ekki er hægt að ná. Það sé í lagi að vera „brúnn og með six-pakk“ en að það sé ekki allra. „Það geta ekki allir stefnt að því að vera eins og ofurfyrirsæta og við ættum ekki að þurfa þess. Við erum allar flottar eins og við erum. Það er kjarninn í þessu.“

Myndin er hluti af kyrralífsmyndaseríu kvennanna.
Myndin er hluti af kyrralífsmyndaseríu kvennanna. Mynd/Berglaug Petra Garðarsdóttir

Eðlileg brjóst í tískusamhengi

Nú vinnur teymið að myndatökum sem hafa það markmið að setja eðlileg brjóst inn í samhengi tísku- og útlitsblaðs. „Við höfum verið að taka mjög læknisfræðilegar myndir af brjóstum og stefnum að því að hafa opnu í miðju blaðinu með öllum myndunum. Við höfum nú þegar fengið konur frá átján ára aldri upp í sextugt. Brjóst eru alls konar,“ segir Berglaug.

Myndatakan verður miðvikudag í næstu viku milli fjögur til sjö í Ljósmyndaskólanum. Áhugasamir geta haft samband við onefnur@gmail.com. Uppskeruhátíð Skapandi sumarstarfa í Kópavogi verður haldin 27. júlí og mun þá tímaritið líta dagsins ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert