Mikil áskorun að ganga einfættur á Hvannadalshnjúk

Á toppnum! Ragnar Hjörleifsson, Þórður Hjalti Þorvarðarson bæklunarlæknir, sjúkraþjálfarinn Ída …
Á toppnum! Ragnar Hjörleifsson, Þórður Hjalti Þorvarðarson bæklunarlæknir, sjúkraþjálfarinn Ída Braga Ómarsdóttir og fararstjórinn Mike Howard. mbl.is

Ragnar Hjörleifsson er einn fjölmargra sem undanfarið hafa gengið á hæsta tind landsins,
sjálfan Hvannadalshnjúk í Vatnajökli. Það væri varla í frásögur færandi nema vegna þess að Ragnar notast við gervifót. Hann missti hægri fótinn fyrir neðan hné í slysi fyrir 40 árum en góður gervifótur og rafmagnsökkli, sem Össur setti á markað fyrir nokkrum árum, breyttu gífurlega miklu fyrir Ragnar. 

„Ég gekk á Hvannadalshnjúk fyrir þremur árum, sem var mikil áskorun; laumaði mér þá í hóp með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, sem er mikið fagfólk varðandi skipulagningu og öryggismál, og nú fólst áskorunin í því að endurtaka leikinn og bæta tímann. Það tókst; fyrri ferðin tók fjórtán og hálfa klukkustund en nú vorum við ellefu og hálfan tíma að fara á hnjúkinn og niður aftur,“ segir Ragnar við Sunnudagsblað Morgunblaðsins, um ferð á hæsta tind Íslands í vor. „Það var líka áskorun að fara á hnjúkinn í tilefni þess að nú eru 40 ár síðan ég missti fótinn.“

Gervifótur ekki sama og gervifótur

„Það fyrsta sem var í boði fyrir mig var að ullarsokkur var settur upp á stúfinn og hörð hulsa utan um hann sem fest var við gervifótinn. Þeirri aðferð var beitt alveg þar til Össur Kristinsson kom fram með tímamótauppfinningu sína, sílikonhulsuna, sem var algjör bylting; næmið og stöðugleikinn í sílikoninu var gífurleg breyting til batnaðar og síðan hefur sú uppfinning verið þróuð áfram. Össur sjálfur vann alla tíð af mikilli elju og það var aðdáunarvert hverju hann áorkaði. Teymi nýrra manna hefur tekið við kyndlinum af Össuri Kristinssyni og unnið tímamótastarf á heimsvísu, eins og menn vita.“

Ekki eru mörg ár síðan Ragnar hafði takmarkað úthald til gangs á hverjum degi. „Ég varð mjög aumur eftir einfalda göngu, hafði í raun takmarkað úthald á stúfnum, en eftir að ég fékk þennan góða búnað þá styrktist hnjáliðurinn, vöðvafesturnar við hnjáliðinn styrktust, en hann ber mig í raun uppi, og smám saman urðu til nýjar áskoranir og þar með Hvannadalshnjúkur, sem ég átti tiltölulega auðvelt með að fara á, hvað þá minni fjöll eins og Esjuna, Akrafjall og Skarðsheiði. Breytingin er gífurleg.“

Hvernig viljum við lifa lífinu?

Þegar spurt er hvort ekki megi líta á ferðir hans á hnjúkinn sem skilaboð þess efnis, hvað sé mögulegt, ef viljinn sé fyrir hendi, svarar Ragnar:

„Jú, þarna hittirðu naglann á höfuðið. Þau skilaboð sem mér finnst hægt að lesa út úr þessum ferðum eru þau að þegar fólk lendir í einhvers konar áfalli þarf það að hugleiða hvernig það ætlar að vinna úr því. Hvernig viljum við lifa lífinu? Hvað viljum við gera úr sjálfum
okkur? Ætlum við að nota áfallið sem afsökun; til þess að þurfa ekki að vakna á morgnana, svo ég nefni dæmi. Til þess að þurfa ekki að vinna? Öllum er einhvern tíma illt einhvers staðar.
Hvernig vinnur fólk úr því?“ spyr hann.

„Össur einn og sér leysir ekki vandamálin fyrir þá sem lenda í svona aðstæðum, maðurinn
sjálfur og hugarfar hans er aðalatriðið. Maður verður að vinna rétt úr hlutunum, gera eins vel
og maður getur úr því sem maður hefur. Það er ekki sjálfgefið að allt takist, hvort sem um er að ræða sjúkdóm eða slys, en miklu skiptir að finna eigin styrkleika og vinna með hann.“

Nánar er rætt við Ragnar Hjörleifsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert